14 Jul 2008

Með tímann við hliðina á mér

Tíminn er mér hliðhollur. Ok, ég skal ekki röfla meira yfir Einverunni. Nema ég skal nú segja yður það að ég fékk þá líka þennan ágætis tíma um helgina til að taka til. NEMA hvað. Ég ætlaði kannski ekkert að detta oní það en þegar Sindri er annarsvegar þá kemur ekki til að maður setjist niður og tölvist aðeins eða teikni eða skrifi eitthvað. Ég get kannski flautað í hálftíma og þá er hann orðinn öfundsjúkur út í flautuna. Eitt verður hann aldrei öfundsjúkur útí og það eru þrif. Svo við puðuðum í því um helgina. Ég ákvað fyrst ég fann að ég neyddist til að ég skildi hreinsa skrítna staði. Svo ég reif upp lokið á einni kistu sem við fluttum hingað. Þegar við fluttum, fluttum við fjórar kistur og eitt altari, það var allt og sumt af húsgögnum. Í tveimur kistum var dót krakkanna og í einni kistu voru að mig minnir bækur og í þeirri sem ég opnaði nú um helgina voru blöð. Vikutímarit, mikilvægar upplýsingar eða trúnaðarpappírar..nei, bara blöð og blokkir með blöðum í. Það er eins með þetta og hreinsi efnin, ég er líka með áráttu fyrir því sem fæst í bókabúðum og svona. Penninn í Hallarmúla er stórhættulegur tildæmis. Í kistunni eru 3 blokkir í ýmsum stærðum fyrir pastel liti, 2 blokkir með pappír sem á að lita með olíulitum á, 4 blokkir með venjulegum pappír, 1 blokk með sérlega góðum teiknipappír (maður verður sko betri í teikningu á því að nota svoleiðis), 1 blokk með póstkortastærð af vatnslitapappír, stærri vatnslitablokk og fyrir utan þetta eru allar gerðir af blöðum. Líka eru í kistunni ótrúlegt magn af ljósmyndapappír, líka í mörgum stærðum. Þá eru þarna leifar af þegar ég tók mér skrapp fyrir hendur. Allskonar pappír í öllum litum og áferðum. Og í kistunni voru líka 16 litlir strigarammar fyrir olíumálningu og svo á ég einn stóran. Rammana tók ég úr kistunni, eða reyndar allt því það var ryk þarna oní síðan í Háagerði, og setti uppí hillu. Nú finnst mér kominn tími til að ég máli á þessa ramma, nógur er tíminn og geri ég þá einn á dag og ætti að vera búin meððá eftir 17 daga, byrja á morgun.

1 comment:

Anonymous said...

Við fáum svo myndablogg af listaverkunum takk fyrir :)
Og til hamingju með Bónda þinn í dag :)
Ástarkv.
Lóa.