31 Jul 2008

Kassar og fleiri kassar

Það er furðulegt hvað það kemur alltaf í ljós hvað maður á í raun mikið af dóti.. það óvenjulega við þennan flutning var að ég henti engu. Alltaf þegar við höfum staðið í flutningum þá hefur helmingnum verið keyrt beinustuleið í tunnuna. Við grysjuðum bara svo svakalega áður en við komum hingað að við erum ekki búin að safna neinu ennþá til að henda. Nú er allt stöff komi yfir nema píanóið fína. Ég er ekki alveg með það á hreinu hvernig ég ætla að koma því yfir..það verður að koma í ljós síðar.

Annars gengur okkur bara vel. Ég er svo hæper að ég á erfitt með að sofna á kvöldin. Sindri fer í frí eftir föstudaginn. Það verður honum trúlega kærkomið, örugglega orðinn þreyttur á þessu volki í skólanum alla daga. Hann er í ferð með leikskólanum núna, fyndið að fara með 30 vaggandi bleiubörn í ferð um Kaupmannahöfn.

Við erum svo í mjög slöppu símasambandi og engu netsambandi eftir sirka þrjú á daginn og örugglega bara alls ekkert um helgina...veit ekki alveg hvernig þetta verður. Það er ennþá samband hér á Poul Hartlings en það stendur til að flytja það 6.ágúst (aaaalveg að pissa í sig af leti hérna...oooo). Þannig íslenski síminn virkar ekki og þá er bara eftir danski gsm, svona ef það var eitthvað.

Hér er ennþá geðveikt veður. Ég er búin að vera sveitt í mánuð.. sérlega þessa daga. Og Sindri glansar líka af svita og sólkremi. Það er á hverjum degi sem við gluðum svoleiðis á okkur á morgnana.

Jæjahh..heyrumst

28 Jul 2008

Po fimmte sal

Það hlítur að vera ánægjulegra að vera veðurfræðingur í öðrum löndum en á Íslandi. Það er örugglega betra fyrir þá sem elska að hafa rétt fyrir sér öllu heldur að vera veðurfræðingar í öðrum löndum en á Íslandi. Hér hefur svo sannarlega staðist að veðrið hefur verið nákvæmlega eins á kortinu sem ég póstaði síðast.

Númm, dregið hefur til tíðinda og er flutningar áætlaðir í fyrramálið. Ég hef að sjálfsögðu fengið mér einkabílstjóra. Planið er þannig að við Aldís og Brynjar mitt nýja uppáhalds fólk byrjum að bera hér niður búslóðina (bús lóðina...bú slóðina..) klukkan stundvíslega 9:00. Eða fyrst fer ég með Örverpið mitt sæta og skemmtilega á leikskólann. Svo þegar við erum búin að einoka lyftuna og hlussast niður með draslið þá förum við Aldís í leiðangur í austurhluta borgarinnr og sækjum bíl sem ég tók á leigu. Hún keyrir. Ég segi til um hvaða götur hún á að keyra. Á meðan hvílir Brynjar því svo komum við aftur og hlöðum bílinn og keyrum eins margar ferðir niðrá (eða ætti ég að segja uppá..vegna óheyrilegs fjölda trappa þarna upp) Englandsveg. Þá affermum við bílinn og Brynjar passar og við förum aftur til baka og náum í meira dót. Númm, klukkan 14 kemur svo lyfta sem ég fann í dag á ásættanlegu verði og kemur til með að vera í sirka 2 tíma og rúlla upp um svalirnar því stærsta og þyngsta..afganginn berum við svo upp. Ef við verðum ekki búin fyrir 4 fáum við pínu extra hjálp frá Arnari Heimi sem hvort eð er á leið framhjá úr vinnunni.

Þannig að þetta er allt að ganga hérna.

25 Jul 2008

Flytja í besta veðrinu


Ég veit ykkur þykir skemmtilegt þegar ég monta mig af veðrinu hérna. Og það er einmitt þessvegna sem ég pósta þessa mynd af veður spá helgarinnar eða næstu viku öllu heldur. Eins og sjá má verður glennu sól og upp undir 30 stiga hiti. Í þessu ætla ég að flytja. Shit. Ég pósta þetta líka fyrir hönd Aldísar B en hana hefur langað til að monta sig af veðrinu hér líka en er því miður netlaus og mikið góðhjartaðari og minna hrokafull en ég.

Einhver sem býður sig fram í að flytja með mér? Ég er ekki að meina ykkur á landi roks og rigninga..heldur þá sem búa hér í næsta nágrenni í Köben.
Flutningurinn hefur æði margt jákvætt í för með sér, fyrir það fyrsta er garantíað að við losnum við auka skvap ef það er að þvælast fyrir okkur. Ef það er ekki að þvælast fyrir okkur þá getum við bókað að við fáum frábæra vöðva eftir þetta púl. Og í þriðjalagi höfum við afsökun til að vera meira og minna innandyra því við verðum öll orðin skaðbrennd eftir góðaveðrið um helgina. Þannig þetta er eiginlega heilsuferð uppá 5 hæð. Ég mun sjá um að það verði kalt hvaðsemer, sem flytjendur vilja drekka til að svala þorstanum. Þó verð ég að segja að allur bjór sem ég myndi versla yrði að vera áfengislaus því ég vill ekki að þið missið æði dýrmætar eigur mínar beint í gólfið.

Nú kemur í ljós hversu góða vini ég á. Ég mun pósta hér myndir af þeim sem ég tel vera vini mína og ekki nenna að taka til hendinni með mér..múÚÚÚÚhahahAHAHA

23 Jul 2008

Í alvöru

Í alvöru..engin komment til mín???

Hann sem leigir okkur tilvonandi íbúð hringdi til mín í dag og sagði að ég gæti bara farið þar inn eftir helgina..þegar hann er búinn í sumarfríi. Það er mjög vel.

Svo hefst bara allt þetta sem ég stóð í fyrir ári..sækja um hitt og þetta, húsaleigubætur á ég við og tilkynna flutning hingað og þangað..þetta virkar allt saman miklu flóknara en heima þegar er nóg að hringja í pósthúsið og biðja þau vinsamlega að senda póstinn annað..og nóg að hringja í símann og segja þeim að maður sé fluttur og að maður vilji móttaka símtölin á réttan stað. Allt myndi það taka hálfa sekúndu, það liggur við að það sé hægt að segja að fyrirtækin á Íslandi viti fyrirfram hvað maður ætlar að biðja um og svo hringir maður og þá er bara allt klárt. Það er ekki svoleiðis hér, hérna gefa þeir sér alveg 2 vikur í að tengja símann á nýja staðinn..það er offfsalega langur tími.

Búnir að vera furðulegir dagar. Rakst á svo heppilega setningu eða eiginlega tvær og þær eru þessar:

"Það er oftast kvíðinn sem hindrar okkur í að sjá hinar ljósu og björtu hliðar lífsins. Kvíðinn býr innra með okkur, svo okkur er frjálst að hafna áhrifum hans á viðbrögð okkar við því sem fyrir okkur kemur"

"Í skugga vængs þíns verði mitt skjól þar til áþján þessi er yfirgengin"

Já seisei.

20 Jul 2008

Det var noget pis

Fjandakornið. Ég neyðist til að svíkjast undan hinni fínu málverkaherferð minni. Ég er að vísu að fara að mála, en bara með hvítu og á veggi heimilisins. Það atvikaðist þannig að við fáum íbúðina sem við ..vorum búin að fá (flókið mál) og þessvegna erum við Sindri búin að vera í flutningaundirbúningi. Við fórum og keyptum kassa. Já ég veit að það er fáránlegt að kaupa kassa en svoleiðis er það hér. Aldís og Brynjar hafa að vísu síðan lánað mér alla sína kassa, ég vona bara að það sé nóg, þó ég efist um það. Flytte kassar eru ekkert ódýrir, 100 kall danskur fyrir 9 kassa..ég held ég sé búin með þá alla og 10 í viðbót.. það gæti orðið dýrt spaug. Þá fórum við í Fisketorvet og keyptum málningu. Ég er alltaf frábærlega gáfuð og að sjálfsögðu fór ég á hjólinu mínu og Sindri náttúrulega í sætinu sínu fyrir aftan mig. En 2 10lítra fötur af málningu hanga ekki á stýrinu hjá mér svo þær fengu að sitja í barnasætinu og Sindri neyddist til að ganga heim. Það gerði hann með glöðu geði eins og allt annað.

Ég hef verið að uppgötva það hér síðustu daga að hann talar fullt, fullt af dönsku, mikið meira heldur en íslensku. Hann skilur auðvitað allt sem ég segi en hann svarar mér oft á tíðum á dönsku. Það er í lagi og ég pissaði á mig af hlátri þegar hann gólaði alltí einu "det var noget pis".....

18 Jul 2008

Málverk númer 3

Egg í móa, olía á striga

Ég hef enga afsökun fyrir því að hafa ekki póstað neina mynd í gær. Ég gerði mynd, kláraði hana áðan en hún var bara svo arfa ljót að ég neyddist til að henda henni. Þessi mynd er miiikið flottari..hehe.



16 Jul 2008

Málverk númer 2

Kaffibolli, olía á striga

Og hér er þá mynd dagsins. Hún heitir Kaffibolli...því þetta er kaffibolli, kaffibolli eins og allir vorir kaffibollar en á þá vantar öll eyrun.

Sindri á tvær kærustur..eða tvö börn, ég er ekki viss hvort hann er orðinn kærasti eða faðir. Hann hefur núna í þrjá daga haft með sér hvert sem er tvær dúkkur. Dúkkurnar eru settar á koppinn, skammaðar duglega, fá að borða, drekka og svo sofa þær hjá honum líka. Hann er mjööög umhyggjusamur, stríkur þeim og segir eitthvað mjög fallegt við þær. Hann er fyndinn.

Í dag fór ég í augnpróf. Í svona 20mín eftir prófið varð ég eiginlega grautfúl yfir því að vera bara með sömu sjón ennþá. Mér fannst hún hafa versnað til muna. En eftir 20mín varð ég náttúrulega þakklát fyrir að vera ekki að missa sjónina.

Annars var þetta hálf glataður dagur.OOO.

Málverk númer 1

Sjóskrímsli, olía á striga
Ég gerði þessa mynd í gær hún heitir Sjóskrímsli og er 10cm x10cm að stærð, en síðan er ég ekki með minniskort í myndavélina og það var ekki fyrr en í morgun að ég fattaði að ég get tekið myndir með vefmyndavélinni sem ég þá gerði. Það er ekki hægt að segja að myndin sé í frábærum gæðum en alveg nóg fyrir þetta frábæra málverk.. :)
Er enginn sem líka á milljón hluti ógerða og langar til að vera memm í þessu?

15 Jul 2008

AfmælisBóndi

Það vita nú flestir að Bóndinn á afmæli í dag. Nú fyrst er hann orðinn maður mætti segja. Hann fær enga afmælisgjöf frá mér, enda er það kallinn sem á að gefa konunni en ekki öfugt..hehe
En í tilefni dagsins þá setti ég saman enn eitt myndabloggið. Ég fór í gömlu ferðatöskuna góðu, sem kom ásamt kistunni sem var full af pappír.. og fann þar nokkrar velvaldar ljósmyndir og skannaði inn.

Afmælismyndablogg

14 Jul 2008

Með tímann við hliðina á mér

Tíminn er mér hliðhollur. Ok, ég skal ekki röfla meira yfir Einverunni. Nema ég skal nú segja yður það að ég fékk þá líka þennan ágætis tíma um helgina til að taka til. NEMA hvað. Ég ætlaði kannski ekkert að detta oní það en þegar Sindri er annarsvegar þá kemur ekki til að maður setjist niður og tölvist aðeins eða teikni eða skrifi eitthvað. Ég get kannski flautað í hálftíma og þá er hann orðinn öfundsjúkur út í flautuna. Eitt verður hann aldrei öfundsjúkur útí og það eru þrif. Svo við puðuðum í því um helgina. Ég ákvað fyrst ég fann að ég neyddist til að ég skildi hreinsa skrítna staði. Svo ég reif upp lokið á einni kistu sem við fluttum hingað. Þegar við fluttum, fluttum við fjórar kistur og eitt altari, það var allt og sumt af húsgögnum. Í tveimur kistum var dót krakkanna og í einni kistu voru að mig minnir bækur og í þeirri sem ég opnaði nú um helgina voru blöð. Vikutímarit, mikilvægar upplýsingar eða trúnaðarpappírar..nei, bara blöð og blokkir með blöðum í. Það er eins með þetta og hreinsi efnin, ég er líka með áráttu fyrir því sem fæst í bókabúðum og svona. Penninn í Hallarmúla er stórhættulegur tildæmis. Í kistunni eru 3 blokkir í ýmsum stærðum fyrir pastel liti, 2 blokkir með pappír sem á að lita með olíulitum á, 4 blokkir með venjulegum pappír, 1 blokk með sérlega góðum teiknipappír (maður verður sko betri í teikningu á því að nota svoleiðis), 1 blokk með póstkortastærð af vatnslitapappír, stærri vatnslitablokk og fyrir utan þetta eru allar gerðir af blöðum. Líka eru í kistunni ótrúlegt magn af ljósmyndapappír, líka í mörgum stærðum. Þá eru þarna leifar af þegar ég tók mér skrapp fyrir hendur. Allskonar pappír í öllum litum og áferðum. Og í kistunni voru líka 16 litlir strigarammar fyrir olíumálningu og svo á ég einn stóran. Rammana tók ég úr kistunni, eða reyndar allt því það var ryk þarna oní síðan í Háagerði, og setti uppí hillu. Nú finnst mér kominn tími til að ég máli á þessa ramma, nógur er tíminn og geri ég þá einn á dag og ætti að vera búin meððá eftir 17 daga, byrja á morgun.

13 Jul 2008

Þóknast fólki

Ég er nú svo þýð í samskiptum og geri allt til að þóknast fólki. Hér er því myndablogg :) Ég myndi síðan örugglega taka rosalega mikið af myndum til að minnast þessarar Einveru sem stendur yfir í höfuðstöðvum Félagsbúsins síðar...en hr. Bóndi hefur tekið öll minniskortin með sér í sveitina á Íslandi, nema hugsanlega eitt sem finnst hvergi.

Myndabloggið

11 Jul 2008

Express

Fyrir hönd Félagsbúsmeðlima er fóru til Íslands ætla ég að baula yfir flugferð þeirra. Þetta væri auðvitað mun reiðilegra hefði ég lent í þessu sjálf, en sem lið í að bæta hversu eigingjörn ég er ætla ég að pústa fyrir hönd þeirra um flugferðina.

Þau innrituðu sig og fengu sæti saman, þrjú öðrum megin og einn hinum megin við ganginn og fremst. Krakkarnir voru víst mjög spennt yfir því. Svo kemur dónalegur flugvallarstarfskraftur og segir þeim að hypja sig úr sætunum því það sé regla að börn megi ekki sitja fremst.. þegar Bóndi maldaði í móinn og ætlað að fá mannaulann til að lofa þeim að sitja aftur svona saman sagði hann bara nei og skildi ekki hvert vandamálið væri að sætu ekki saman. Það átti svo að leigja handa þeim vídjó til að horfa á eins og auglýst er á vefsíðu Express en það var aldeilis ekki hægt í þessu flugi. Taka má fram að þetta var ekki flugvél frá Express og ekki starfsfólk Express heldur eitthvað frá Lettlandi að mig minnir að þau hafi sagt..eða Litháen. Það er ekkert að því að fljúga með fagfólki sama frá hvaða landi það er, en þegar það vantar parta af stólum, beltin eru laus eins og kom í ljós að var í þeirra tilfelli og flugfólkið er dónó þá getur maður nú ekki þagað skohh.. ekki nóg með allt þetta heldur var seinkun, sem enginn þolir (nema ég því ég er fullkomin) og svo er mAmma Lóa öll í lími eftir ferðina. Sætisarmurinn á stólnum var ekki með púðanum á og það var límband svo hún festist bara við stólinn. Það átti kannski að vera vara leið ef beltið myndi slitna..að líma mannskapinn bara niður. Já, eins og ég sagði þá þagar maður ekki yfir svona svo ég kvartaði til Express. Hringdi fyrst (ég var spök) og sagðist hafa kvörtun, við hvern ég ætti að tala. Mér var sagt að senda tölvupóst (ég er orðin rooosaleg í að pikka ég sendi svo marga tölvupósta hingað og þangað) til kvörtunardeildar sem ég gerði. Og fékk afsökunarbeiðni í dag og þeim þótti þetta svakkkkalega miður. Í mínu bréfi fór ég fram á skaðabætur en það kom ekkert fram í póstinum frá þeim að það ætti að gefa mér flugför fyrir familínuna til mæorka eða neitt í staðinn....
(þessi texti er tileinkaður Ásu og Pabba mínum, þau eru sérstaklega hrifin af Iceland Express bæði tvö)

Einvera okkar Sindra gengur alveg ágætlega. Hann spyr að vísu gríðarlega oft um pabba sinn og systkini en það tekur út yfir allt hvað hann spyr oft um Ömmu Lóu.. ég er búin að segja það svona þúsund sinnum að hún sé heima á Íslandi.
Við fórum svo í gær eftir leikskóla og átum kex og drukkum dúð (djús) í strætóskýli þar sem við (ég) ætluðum í Amagerplanteland, með strætó, sem er einskonar Blómaval. Náttúrulega ekki á íslenskan mælikvarða og voru plönturnar næstum því allar dauðar. Eða næst því. Ég ætlaði sko að kaupa terrakotta potta...(kotta potta..hehe) til að flytja aumingja tómatplönturnar sem eru ennþá í ræktunarkössunum í almennilega potta svo þær geti vaxið eins og hinar sem eru orðnar risastórar. En kom út með mold og 6 aðrar tegundir af kryddjurtum... Sindri söng og söng í búðinni of fékk vökvunarkönnu en hingað til hefur hann þurft að notast við plastflösku sem er ekkert verkfæri fyrir alvöru svalaplöntuvökvara. Hann heillaði alla uppúr skónum í búðinni. Ég og hann erum gott par, því þegar við vorum komin í strætó aftur og ég sá verðmiðann á bölvaðri dollunni sem hans hátign ætlar að vökva úr sá ég að ég hafði líklega ekki greitt fyrir hana...En hann söng voða vel og er greinilega umhugsað um buddu Bústýrunnar.

Það er svo margt skemmtilegt skal ég ykkur segja. Þó ég hafi svo oft og mörgum sinnum farið í hugamínum til helvítis og til baka þá kann ég svo vel að meta þegar hið óvænta gerist og gleður mig. Ekki get ég samt sagt að allt sé óvænt þannig, það er ekkert óvænt að við höfum fengið aðra geðveikt flotta íbúð því við fórum jú og sóttum um hana og það er heldur ekkert óvænt að ég er að fara að læra á selló næsta vetur...því ég sótti um það. Það gerði ég meðan það varð e-h skammhlaup uppi í Heilabúi. Ég skrifaði sísvona á umsóknina fyrir næsta vetur að ég vildi líka læra á selló. Á ég selló??? nei. Það verður þá bara að redda því e-h veginn. Á einhver sem vill lána? Annars var ég að hugsa um að reyna að komast yfir e-h hræódýrt á eBay eða e-h álíka stað, einhver sem hefur reynslu af því að kaupa hljóðfæri á eBay? Reyndar finnst mér kontrabassi miklu voldugra og meira kúl hljóðfæri. En ég ætla að byrja á sellóinu. Ég hef náttúrulega alveg hálfan vetur tekið kennsku í gítarleik og það eru amk 5 ár síðan svo ég get ekki sagt að ég kunni neitt á hann og það er uþb þá allt (eða ekkert) sem ég kann á strengja hljóðfæri. En ómægad, hvað það er rossalega flottur hljómur úr selló, vúff.

Svo las ég mbl.is áðan og komst að því að það væru flóð hér í nágrenni mínu. Ekki gat ég séð það. Eina sem ég sá var frekar stór pollur sem tók mig hálfa sekúndu að hjóla í gegnum. En hinsvegar þá vaknaði Sindri við rigninguna sem var í nótt og hún var GEEEEÐVEIK. Ég hef bara aldrei séð annað eins. Það eru víst klóakrör og e-h svona sem hefur flotið upp, það er greinilegt að við í Danmörku skítum ekki mjög þungu. Ég varð samt ekki vör við neina lykt eða neitt svoleiðis eins og kona ein á Íslandsbryggju hafði sagt við Jyllands-Posten, að kjallarinn væri fljótandi í mannaskít og það væri frekar vond lykt en ekki væri um annað að ræða en að þrífa það upp og taka til. OJ.

9 Jul 2008

Með sex ferðatöskur

Ég var að koma heim núna rétt í þessu eftir að hafa fylgt liðinu mínu útí Metró. Ég afber ekki að fara með þeim allaleið á völlinn..Þau fóru alveg með sex ferðatöskur, að vísu allt handfarangurs töskur nema sú sem Lóa var með, því hún var jú að koma með hrygg og annað góðgæti handa okkur sem ekki komst í neina petit flugfreyjutösku.. Þó ég hafi þusað yfir því að ég þyrfti sko ekki að lá segja mér hvað ég gæti gert hér á meðan þau eru hér, og ég sagði heil ósköp um að ég nennti sko alls ekki að fara að þrífa hér, þá er ég samt mjög fegin að það hefur ekki verið tekið til eða þrifið hér í marga daga. Ég hef verið í óðaönn að hugsa upp verkefni og er komin með þó nokkur.

Anna, já allt annað. Við erum að fara að flytja. Já seisei. Við ákváðum að við vildum búa í "danskri" íbúð. Uppáhalds orðatiltækið mitt er "leitið og þér munið finna". Ef þú leitar ekki að vinnu færðu ekki vinnu og ef við leitum ekki uppi það sem okkur langar þá fáum við það ekki. Ég er búin að vera að kíkja eftir íbúðum í smá tíma en aldrei sent neinn póst, bara skrifað okkur á einn biðlista. En svo sendi ég póst og var boðið að koma í opið hús í einni íbúð. Kemur í ljós að þetta er fasteignasala sem á helling af íbúðum og við fengum lykla af alveg 20 íbúðum í öðrum húsum heldur en opna húsið var í. Við völsuðum um Englandsvej og Østerdalsgade með alla lyklana og gátum valið okkur íbúð. Það gerist nú ekki oft. Oftast þarf maður að taka bara því sem bíðst.

Við völdum okkur geðveika íbúð, sjiiitt hvað hún er flott. Þetta er penthouse (já ...rosa góð meðsig..) eða þakíbúð að dönskum stíl. Það er allt nýtt í henni eins og er hér, enginn hefur búið í íbúðinni áður og það fylgir þvottavél, þurrkari og ísskápur. Eina sem er ekki þar sem er hér er uppþvottavél en hana höfum við hvort sem er ekki notað síðan við komum og svo eru ekki fatskápar, en WHO CARES... Og svo er ekki lyfta og þetta er uppá 5 hæð , sem jafngildir 6hæð á Íslandi, svo bara þeir sem eru í góðu formi geta komið til okkar í heimsókn (drííín). En okkur er alveg sama, það eru tvær svalir, stór og rúmgóð herbergi, Bóndinn er hættur að vera ástfanginn af mér og er nú forelsket í eldhúsinu þar sem að honum finnst er geðveikt. Íbúðin er undir súð að nokkru leiti og er björt og falleg. Rúsínan í pylsuendanum er að íbúðin er einum fermetir stærri og tööööluvert mikið ódýari.. Við getum flutt þangað inn annaðhvort 1.ágúst eða 1.september.
Það er því svo að íbúðin sem við erum í núna gæti verið laus til leigu frá 1.ágúst eða 1.september í einhvern tíma, ef e-h er að flytja út og vill vera e-h staðar meðan hann er að leita sér að íbúð..eða ef þarf að vera hér í smá tíma. Verið bara í bandi ef það er raunin.

Númm, annað hef ég ekki að segja. Markmið mitt þennan mánuðinn er að halda geðheilsu á meðan ég er ein í heiminum og svo að fá það í gegn að ég geti flutt um 1.ágúst..við sjáum hvað setur, ég get verið frekar aðgangshörð og komið hlutunum af stað í rétta (mína) átt..það vitið þið sem þekkið mig best..hoooo hoo HOOOO

7 Jul 2008

Hressandi


Hér er jú allt við það sama. Að vísu eins og ég nefndi styttist óðum í að ég og sá sem er gróinn við minn æðri enda verðum skilin eftir hér í Danaveldi. Já ég segi skilin eftir.. Afleggjararnir eldri fara í fjölskylduheimsóknir margar og öfundum við af því. Bóndinn fær að fara að djöbblast í vinnu með vini sínum, vinna hálfan sólarhring, tromma í 1/4 og sofa saman (þeir sko) í tjaldi afganginn. Ég öfunda...ég öfunda alveg rooosalega mikið í dag. Við Sindri fáum að vera hér, hann í mjög svo þýðingarmiklu verkefni á leikskólanum og ég heima að gera HVAÐ??? Ekkert. Ó mig auma.Til hressingar

Ekki byrja að segja..."já, þú nýtur þess bara að vera ein heima", "þú ættir bara að gera e-h fyrir sjálfa þig á meðan" , "þú notar tímann til að hressa uppá heimilið meðan hann er í burtu"... Ég er alltaf heima, ég þarf ekkert að vera ein heima til að njóta þess, allt sem ég geri yfir höfuð er fyrir sjálfa mig, ég er örugglega sjálfmiðaðasta manneskja sem ég þekki og hressa uppá heimilið...úff, mér finnst nú barasta alveg nóg að stunda venjulega þvotta hér. Ef e-h er í reiðileysi á Íslandi þá er honum boðið að koma og njóta sumars hér hjá mér. Ég verð upptekin við störf í tölvunni allan daginn og fer ekki í neinar skoðunarferðir nema þú bjóðir mér uppá nammi í enda ferðar.


Annars er hér búið að vera hið fínasta veður. Við fórum í Christianíu í gær, það finnst mér alltaf frábær staður. Á aðalgötunni má segja að flestir séu í mjög nánu sambandi við sjálfa sig. Innan um má finna flott hús. Einn maður var að selja bongó trommur og Bóndinn fór og prufaði. Maðurinn hélt að hann ætti stærri trommu heima hjá sér og hélt að hann ætti skinn...menn eru bara svo rólegir þarna að þeir muna ekki hvort þeir eigi varninginn heima..hehe. Þegar Bóndi var búinn að prufa trommuna sagði hann, "you'll be seeing me again" ég er rétt að vona að hann ætli að fara og kaupa trommuna og svo bæði hvítu og svörtu húfuna sem ég sá hangandi þarna. Það voru svona húfur eins og ég er búin að týna en ná bæði yfir hausinn á mér og hárið, svona afró húfa nema ekki í jamaica litum.Meira hressó





5 Jul 2008

Félagsbúsmeðlimir bornir út

Ég er ekki að meina að ég sé að troða þeim innum bréfalúgur hjá nágrönnunum.. nei, það eru næstum allir félagsmeðlimir að fara til Íslands á miðvikudaginn og koma ekki aftur fyrr en síðla sumars. Þau fara Gvendi og Sunna og líka Þorvaldur.
Hann ætlar að halda til á Hvolsvelli ..í tjaldi..hann auglýsir eftir græjum til að hita sér vatn..einhver??

Já, ég veit það ekki. Við verðum þá ein hér ég og sá sem hefur verið saumaður við rassinn á mér.

Af veðri er allt fínt að segja. Mér finnst bara geðveikt að hafa heitt veður og sólskin. Og ég lá allan daginn á ströndinni í gær...þvííílík sæla. Ég lá þar og las og skrifaði. Og í dag fórum við útí skóg og átum þar gotterí. Við vorum að stikna en mér finnst það dásamlegt. Svo dásamlegt að ég fór og lagði mig á svölunum í sólinni núna áðan. Nú er ég bara allan daginn á brókinni, það er svo heitt og ágætt. Sé að ég þarf að fara að fjárfesta í geitungaveiðara..og búðir eru farnar að auglýsa myggusprey, eftirmyggustungumeðal, rafmagnsflugudrepara og skógarpöddufjarlægjara..ég sé mér ekki annað fært en að fjárfesta í því öllu ..og duglegu flugnaeitri.