...þegar veðrið er æðislegt. Það er vægast sagt búið að vera gott veður í dag. Enginn hnoðri í norðri sem verður að veðri þótt síðar verði. Þetta hefur orsakað annan bruna á baki mínu. Nú er ég komin í annan náttúrulegan nærbol, spurning hvort ég lími ekki bara plástur yfir geirvörturnar, láti það gott heita og valsi þannig út á morgun. Ég varð fyrir uppljómun áðan. Ég var að hjóla í SuperBrugsen sem er búð á Njálsgötu. Ég þarf að hjóla í gegnum stíg og grjótlagða götu inni í miðri Kaupmannahöfn til að komast í þessa búð. Stígurinn er reiðhjóla og gangandi vegfarenda stígur og gatan er bara venjulega bílagata í miðju hverfi. Þetta er bara skemmtilegt, sérstaklega því ég mætti hestvagni á leiðinni og farþeginn var hundur. Svo lagði líka góða lykt frá veitingastöðunum í þessu litla sæta hverfi á Íslandsbryggju, mín megin við Artillerivej. Ég er alveg sannfærð um að þetta er besta staðsetningin í bænum, fyrir utan hið augljósa á korti, að við búum nálægt öllu, er að hér er smáhúsa þorp í skógarjaðrinum sem við sjáum útum gluggann þar sem fólk býr í litlum einbýlishúsum og er með fallegan garð og mikið af blómum, örlítið hippalegt. Hérna megin við Artillerivej höfum við svo götunöfn sem vísa í Íslendingasögurnar, Njalsgade, Gunnløgsgade, Bergthorasgade og svo náttúrulega Reykjavíkurvegur og Íslandsbryggja, afar hughreystandi í heimþránni. Í þessu hverfi eru að minnstakosti 5 búðir og 2 bakarí, 3 blómabúðir, pósthús, apótek og allt sem maður þarf. Fjöldinn allur af veitingahúsum og kaffihúsum sem myndar skemmtilega stemningu. Það er einskonar þorpsstemning hér, þorp í borg. Þar sem litu húsin eru í jaðri skógarins er náttúrulega skógur fyrir aftan og þar er hægt að ganga eða hjóla í gegn og þar er einhver hestabúskapur og reiðskóli, allavega angar annaðhvert barn sem kemur í strætóinn sem gengur hér alveg eins og kúkur. Ekki bara er allt fallegt hérna, skemmtilegt bland af gömlu og nýju, heldur má líka vænta þess að sjá ýmislegt hér í hverfinu, í morgun mætti ég t.d tveimur stelpum á hestvagni með póníhest spenntan fyrir..þvílík dásemd. Númm, til kosta mun líka teljast rokið sem er hér nánast alltaf. Það hindrar Íslendinga, sérlega þá sem hafa dvalið á Hvammstanga og á Völlunum í Hafnarfirði, í að drepast úr hita eins og var hér í dag. Þá er alltaf gott að hafa goluna til að kæla sig niður, fyrir utan að það er mikið minna um skemmtivini eins og geitunga og annan óþverra heldur en á öðrum stöðum þar sem er alger molla. Þá er einnig mjög fljótlegt að þurrka þvottinn.
Í gær skruppum við til Christianiu. Það er nú varla hægt að segja skruppum til...þetta er hér alveg við túnfótinn. Inn við fórum og skoðuðum venjulegar götur þar. Þetta er svo skemmtilegt, mörg hús undarleg í laginu og furðulega máluð. Allskins fólk þar eins og er trúlega eðlilegt fyrir Christianiu. Allir mjöööög slakir. Það kom á óvart hvað það var ekki ógeðslegt eins og mig minnti síðan um árið. Það var engin hlandfýla og Bóndinn fór með krakkana á klóið á einu kaffihúsinu og þar var allt spánýtt inni og hreint. Alveg hellingur af ferðamönnum þarna.
Afhverju skyldi maður vera extra hamingjusamur í góðu veðri? Er það birtan sem kemur af sólinni, hitinn frá henni eða hvað? Ef það er svoleiðis afhverju búa þá ekki allir í Ástralíu..eða þar sem er alltaf sól? Það er allavega gleðinni frá sólinni að þakka að ég missti mig ekki þegar ég fann fyrsta gráa hárið ....
6 Aug 2007
Kaupmannahöfn...
Posted by Bústýran at 9:32 pm
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
3 comments:
Yndisleg lesning, lætur mann fara strax að hlakka til að koma aftur. Kannski ég troði mér með í tösku föður vor sem kemur til yðar á morgun. En mikið mun verða sparað og nýtt til annarrar ferðar, helst á þessu ári!
Júhúúú..það yrði náttúrulega snilld
kannski þú ættir að setjast niður við skriftir Kristín mín.. það leynist í þér góður penni. Frábært lesning og ekki leiðinlegra að njóta allra þessara hluta sem þú lýsir svo vel :)
Post a Comment