30 Aug 2007

Haustlykt

Það er vel við hæfi að það sé haustlegt hér í kóngsins fyrst ágúst er nú einusinni að verða búinn. Þó held ég að hitinn sé ekki undir 15. í gær þegar ég fór á fætur og útá svalir var þar svona frostlykt, það finnst mér vera ótvíræður haustboði, fyrir utan að lauf er farið að fjúka af trjánum og ávextir liggja um allar götur.
Það er sagt að hér sé óvenjulega mikið að mygg (mug) (mýflugu/moskító). Það sé vegna þess hvað hefur rignt mikið, e-h um að þær verpi í vatn og.... Það er víst þannig að fólk með garða við húsin sín getur ekki setið þar á kvöldin, fólk á það bara á hættu að verða étið, eða allavegana vel bitið. Þannig er í vinnunni. Húsið er alveg fullt af flugu. Það eiga allir svona rafmagnsflugnaspaða. Þá grillar maður þær bara. Það sem ég þarf að gera er að fara í villtan tennisleik með spaðann á móti allskyns flugum. Þær eru venjulegar myggur og svo eru þarna allskonar köngulær og fleira og fleira..ojojoj.

Þetta er gistihúsið á Kastrupvej, en eins og aðeins gáfumenn vita þá er konan sem við vinnum fyrir (á mjöööög kynjamisréttuðum launum) með gistiheimili sem er á tveimur stöðum á Amager. Þetta gæti verið rosalega fallegt en þarna er endalaust af dóti. Húsið hefur líka verið hertekið af kóngulóm, þarna eru vefir allstaðar.
Hér er veröndin niðri.




Og hér er afgangurinn af veröndinni. Þarna glittir líka í hlið, brúnt undir tré á móti. Þar fyrir handan er risastórt svæði, líka fullt af dóti. Þar hef ég séð glitta í hjólastell,klósettskálar,horngrind í eldhúsinnréttingu,risa stóran gráan járnbala (sem mér finnst flottur), stóll frá Macintosh (sem er frægur, frægur hönnuður) sem vantar setuna á og kostar heill marga peninga, regnhlífar, skór í öllum stærðum og gerðum, stólar og svo videre. Þau héldu loppe market en samt er allt enn fullt af dóti. Ótrúlegt.
Hér er hinsvegar Sunneva Eldey að skúra gólfin. Á bakvið er Sindri eitthvað að bedúa og Bóndinn að ryksuga. Á meðan var ég með lappir uppí loft og lét Gvenda stinga uppí mig einu og einu vínberi og veifa blævæng yfir mér. Mér finnst ekkert annað en við hæfi að ég fái toppmeðferð á minu eigins heimili þar sem það er nú einu sinni ég sem held þessu öllu saman.

27 Aug 2007

Ísbíll

Það er auðvitað ísbíll hérna. Hann hringir bjöllunni og allir í blokkinni hlaupa í lyftuna og brenna niður og kaupa sér frystikistufylli af ís. Í dag var skemmtilegt því Gvendi og Sunneva fóru sjálf og keyptu ís. Þau eru náttúrulega ekki talandi á dönsku ennþá..en þeim tókst alveg ágætlega að velja stærsta pakkann, með 36 ísum í. Þarna á eru þau á myndinni (verður að setja upp gleraugun,eða smella á myndina til að fá hana stærri:) að benda afgreiðslumanninum hvað þau ætla að fá. Í tilefni af því að við Sindri vorum á svölunum að horfa á dásamlegheitin, meig hann í rennuna þar. Ég var bara fegin að hann stóð ekki aðeins nær því þá hefði hann hlandað beint á svalirnar fyrir neðan...þá hefðum við nú fengið skammir í hattinn...

25 Aug 2007

Þorpari

Ef vill svo til að lögreglan í Kaupmannahöfn sé að leita að ódæðismanni þá er ég með mynd af honum. Ég var grandalaus borgari þegar þessi óborgari mætti mér. Það var ekki fyrr en ég hafði furðað mig frekar mikið á því að hann var með grímu...já, grímu sem var með lokað fyrir hálft andlitið og hann var ekki í neinum slæðubúningi og var síður en svo kona af þeirri gerð, að ég fattaði að ég hafði stoppað til að taka mynd af ljótri blokk og svo smellt einni á götuna framundan og viti menn...þorparinn er með á myndinni.

Ljóta blokkin, þetta eru ekki steyptar svalir þetta gráa allstaðar heldur bárujárns markísur..eða svoleiðis skjól.

Og þarna er kauði, bara venjulega klæddur, náttúrulega fyrir utan grímuna og með svona ferðamannapung um mittið og hvítan poka. Myndin er ekki í mjög góðum gæðum því ég þurfti að stækka hana töluvert til að sjá í gæann....en hann er þarna. Spurning hvort ég verði í framhaldi af þessu handtekin sjálf fyrir að hafa ekki skilað inn sönnunargagni...kannski ég fái mér grímu.

24 Aug 2007

Bit

*Bit af ýmsu tagi hafa hrjáð okkur hér í blokkunum tveimur. AHG hafa fengið svæsin bit...mikið svæsnari en við. En við erum eymingjar og kvörtum og kveinum. Bitin eru þannig stundum að þau klæjar endalaust og mann langar að kroppa eigið skinn af. Önnur taka uppá því að bólgna og svæði í kringum bitin verður rautt og þrútið. Síðustu helgi vaknaði ég með uþb 20 bit á fótunum og tvö í andlitinu. Nammi. Fékk svo eitt í dag, mér finnst þetta alveg rohosalega ógesslegt. Hvar var flugan t.d á undan hún ákvað að stinga mig og drekka úr mér blóðið???
*Nú er klukkan 22:20 en daninn sem venjulega er búinn að vinna áður en hann byrjar er hér í hverfinu að götusópa með tilheyrandi hávaða...furðulegur tími líka þar sem það er helgi og allir heima á föstudagskvöldi...
*Við fórum í mat áðan yfir á AHG. Þar heyrðum við skemmtilega sögu af flugum sem eru mjög algengar á norðurlöndunum (væntanlega fyrir utan Ísland). Þær hafa þann háttinn á að þær bora hausnum oní skinnið á fólki og drekka þar blóð meðan þær anda með rassgatinu. Það má ekki taka þær af því þá verður hausinn eftir og það ku vera hættulegt. Ráðið er að setja vaselín á rassinn á þeim, þá kafna þær og þá er hægt að taka þær úr. Spurning um að vera alltaf með vaselín við höndina...

22 Aug 2007

Missti framtönn

Gvendi missti tönn í skólanum í fyrradag. Er þetta ekki afskaplega mikil 6ára mynd, svona skældur með enga tönn :)

Hann byrjaði líka í skólanum í dag. Skólinn er í sama húsi og skóladagheimilið sem hann hefur verið á síðan í byrjun ágúst. Þeir dagar hafa verið mis frábærir. Alltaf gaman en mest gaman þegar hinn íslenski strákurinn er líka.
Nýklipptur. Það má segja að þau hafi verið eins og grýla og leppalúði áður en við fórum í klippinguna.

Sunneva komin með hár á axlir, það voru teknir alveg 10cm af hárinu á henni. Það er ekkert auðveldara að fá hana til að greiða á sér hárið, það tekur bara styttri tíma...
Hún er líka glöð á sínum leikskóla.

Á morgnana hjólum við í gegnum skóginn að skólanum hans Gumma, þar á leiðinni er hesthús, stórt sem er með reiðnámskeið. Við horfum á hestana og hnusum lyktina og viljum fara í sveitina. Þegar við vorum komin eiginlega alveg í gegn einn daginn sá ég mann sitja við borð og hjólið hans standa við borðið. Hann er þarna alltaf, líka um eftirmiðdaginn, alveg einn. Svo sá ég einn daginn að hann drekkur fjári mikið af bjór... sei, sei og nú í kaffinu þá var bara taska þarna, engin karl, hann hefur trúlega brugðið sér af bæ.
Annars má segja frá því að ég hef verið að hreinsa herbergi hjá konunni sem Þorvaldur vinnur hjá. Þá hjóla ég með Sindra í stóra hjólinu og læt hann sofa í því. Það er rosalega fyndið, ég klúðraði efri hluta vagnsins hans oní hjólið, setti þvottakörfuna mína undir svo hann rynni ekki niður og brunaði af stað. Í gær svaf hann þar í 2 tíma...í trékassa föstum á hjóli...híííí.
Það verður heldur ekki skafið af því þegar ég segi hvað ég hef hjólað mikið í gær og í dag..eða hve hratt ég fór. Í gær hjólaði ég þar til mig verkjaði í fæturna. Ég hjólaði um það bil 20km og það allt með börn og síðar á ferðinni með innkaupa poka líka í hjólinu. Börnin eru samtals um 50kg...bara því ég ætlaði ekki að skafa af því... Í dag hjólaði ég svo fætur toguðu í vinnuna, ég þarf að hreinsa herbergi á tveimur stöðum, það tekur 20mín að hjóla á seinni staðinn héðan. Og til baka geystist ég í metróið með Sindra í barnastól á mínu hjóli. Í Metróinu fór ég að Norreport í hendingskasti og brunaði svo upp Nørrebrogade til að fara í viðtal í tungumála skólanum KISS. Elskulegt nafn alveg. Ég fer þá að læra dönsku í október.
Nú er hinsvegar helst að ég fari í sturtu því það er ekki þannig að maður framleiði vellyktandi þegar maður hjólar svona mikið og svona hratt og í þeim hita sem var hér í dag...vóóóóó.

Hér er hinsvegar mynd af símahólfinu í hillunni minni Fyrst við fengum okkur annað símanúmer þá þurftum við annan síma. Sá er fagurbleikur. Ég lagaði auðvitað til í þessari tækniflækju en þarna eru : Router,Siemenstæki (sem ég fékk til að geta haft internetið frá vinum mínum í TDC), tvö tæki til að tala í símann yfir netið, 13 snúrur í öllum litum og öllum gerðum, millistykki fyrir 6 klær, snúrur liggja eins og kóngulóarvefur úr hillunni. Ótrúlegt hvað við þurfum að líða fyrir bara til að yður getið hringt til okkar og sent tölvupóst.




20 Aug 2007

Drifið á dögunum

Hér er allt við sama heygarðshornið. Nema það að við grannkona mín fórum á lífið á föstudagskvöld. Það var gaman.
Saga af Bóndanum og því sem hann gerir:
Það hefur lengi fylgt Bóndanum að safna dótaríi. Allskyns "drasli" úr "rusli" annara. Til að mynda hefur komið heim til okkar, hvar sem það hefur verið hverju sinni, tugir ryðgaðra nagla, maður veit jú aldrei hvenær mikil þörf á nöglum gæti dunið yfir; Ryðguð verkfæri, svo sem sagir af öllu tagi; gult appartat sem menn nota á verkstæði fyrir verkfærin sín, svona sem er á hjólum, það ætlaði nú aldrei að fá að fara til síns heima aftur... skápur, sem var örugglega 100 ára og jafn blautur og hvað hann var gamall og þurfti að prýða garðinn minn á Hvammstangabraut 7 meðan hann þornaði. Hann var að vísu málaður hvítur, eða amk framhliðin og hliðin sem sást og hafður uppi á skör og ég setti inn í hann meira drasl, þess má kannski geta að þegar við fluttum þá hentum við honum og öllu sem inní honum var án þess að blikna. Þannig má segja að við höfum verið með okkar eigins gámastöð uppí stofu. Fleira varða, t.d skápur sem hefði litið gullfallega út þarna undir sjónvarpinu ef það vantaði ekki aðra hurðina á hann. Tannlæknastóll sem reyndar meikaði það aldrei inn. En hann var flottur. Ótalið verður allt spítnabrakið sem hefði geta orðið að hillu (jafnvel hefði hún verið negld upp með ryðguðu nöglunum eða söguð til með ryðguðu söginni:..). Einna vænst um þykir mér þó um altarið okkar góða. Það er sagt vera frá góðri kirkju í Húnaþingi vestra og er næstum því eina húsgagnið sem við fluttum með okkur til Kaupmannahafnar. Það og leikfangakistur barnanna voru einu húsgögnin. Nú sómir það sér mjög vel frammi við hliðna á píanóinu glæsta sem ég spila svooo vel á. Áður hafði það gegnt hlutverki bleiuskiptistöðvar og þar áður var það dótaríisgeymsla.
Sagan er hinsvegar um það að hjá konunni sem hann er að vinna hjá er víst ógrynni af drasli, hann hefur tuðað yfir þessum haug hjá blessuðu fólkinu og kallað þau safnara aldarinnar.Þar er allt...ALLT. Hann heldur því fram að hann sé búinn að læknast af sinni safnáráttu því honum ofbjóði svo geðveikin í þeim. Þar af leiðandi er hann BARA búinn að koma heim með 12 strengja gítar handa mér :) djembe trommu með silvurfæti, stjörnukíki og fullorðins hjól..... hvort það var eitthvað fleira getur vel verið...ég er svo að fara að vinna hjá konunni líka, er að fara bara núna rétt í þessu. Ég þarf bara að finna út hvernig ég kem Sindra með mér á hjólinu, samt í barnavagninum því hann þarf að sofa akkúrat meðan ég á að vinna...ég get allavegana ekki beðið eftir að sjá téðan safnhaug fólksins.

17 Aug 2007

Björtuhliðarnar

Það eina góða við það að fartölvan dettur í gólfið (ég ætla engum að kenna um en ég hefði getað bent á yngsta afleggjarann) er að allt kuskið sem var undir lyklaborðinu er ekki þar lengur.

15 Aug 2007

Hársnyrting og nýr sími

Við getum auðvitað ekki verið öðruvísi en allir sem flytja hingað til Danmerkur. Við erum búin að fá svokallað íslenskt númer. Það er símanúmer sem kostar bara ekkert að hringja heim til Íslands og svo bara á venjulegu Íslands verði að hringja þaðan og hingað. Númerið fæst í skiptum við tölvupóst frá ykkur.

Svo fór ég með börnin í klippingu í dag. Það var alveg kominn tími á það. Loðmundur og Loðeva settust í stólinn hjá að ég held rakara. Jámm, við fórum á Hárstaðinn, ég hef trú á því að ég velji mér stofu næst eftir gæðum ekki staðsetningu.
Hann var trúlega sjötugur og með dágóða ístru. Það aftraði honum að vísu ekki við að sýna snilldar takta sem hárgreiðslumaður. Hann sveiflaði skærunum, á milli þess sem hann rak þau í lubbann á börnum, snöggt upp og til hliðar og þvaðraði heil ósköp við þau á dönsku sem þau skildu náttúrulega ekki neitt og sátu þarna eins og dæmd. Sunnevu fannst þetta nú ekki óþægilegra en svo að hún dottaði á milli skærasveiflanna hjá karlinum.
Það var furðulegt að koma þangað inn því það mætti okkur rakalykt, ekki æðisgengin dásemdarlykt af ótal hárvörum. Lágt til lofts og teppi á gólfinu....lastu þetta?? TEPPI!!! Ég hefði nú síður nennt að taka fram ryksuguna 100 sinnum á dag til að ryksuga hár þá vill maður frekar hafa kúst og ekki teppalagt gólf. Númm, stofan var svosem búin öllum tækjum en það var engin biðstofa og ekkert fínerí sem er í boði á þeim stofum sem ég hef farið á. Reyndar má segja að það sé bara annar standard hérna heldur en heima þar sem allt er greinilega rosalega flott. En þau líta ágætlega út greyið börnin en ég held að ég fari samt ekki þangað aftur. Ég myndi sennilega frekar klippa mitt hár sjálf heldur en að láta blessaðan ístrurakarann gera það. En hann var nú samt sem áður alveg ágætis maður, hann sagði að Gummi hefði færeysk augu og að þau væru súper róleg, börnin mín... ég vildi að ég gæti haft einhvern bláókunnugan heima hjá okkur af og til því þá verða þau alltaf eins þæg og hljóðlát og hægt er...

11 Aug 2007

Veðurfréttir



Það er ekki lítið sem ég er búin að baula um hvernig veður er alla daga hér. Skemmst er frá því að segja að það er obbbossslega gott veður þessa dagana. Það er sól og heitt og heitt og sól...og svo smá rigning, bara rétt svona til að koma rykinu niður á jörðina. Pabbi minn er búinn að vera í heimsókn og það var dásamlegt. Við særðum út hjól hjá blessuðum grönnu grönnunum í AHG og erum búin að hjóla um víðan völl.Ég veit nú svosem ekkert hvað þessi kerling var að troða sér með okkur í hjólaferð...við þekkjum hana ekki neitt. En þarna eru allavega Bóndinn með buru í kassa og pabbi að hjóla í skóginum hinum megin við Artillerivej (þar sem húsin eru í jaðrinum á, sbr.póstinn fyrir neðan)

Við fórum á svæði á Amager sem var með hellign af pínulitlum húsum sem voru svo sæt, sum með vel hirtum garði en önnur með algerum ofgróðri. Þarna voru blóm af ýmsustu tagi, eplatré, perutré og plómutré sem við rændum af tveimur grjóthörðum óætum plómum.


Þarna var alskonar skemmtilegt, t.d þetta útiljós. Það er pera í græna blómapottinum og svo mætti setja hvað sem er í hvíta pottinn.


Ég fékk Gumma til að taka myndir yfir hekkið af japönskum garði sem þarna lá og ég ekki sá...

Allt er fínt að frétta annars. Eftir frábæra daga með afa í heimsókn þá tekur við hversdagsleikinn en hann er ekkert verri. Nú halda Gummi og Sunneva áfram að dóta sér á leikSkólunum. Gummi kemur ævinlega rennblautur heim. Í góðu veðri er kveikt á úðara og vatn fyllir uppí dæld í malbikinu. Þar er buslað á brókinni og haft mjög gaman að. Sunneva er jafn þakin sandi og Gummi vatni...hjá henni er ævintýralegur leikvöllur og fór hún í sína fyrstu ferð, svo kallaðan tur, með leikskólanum. Það var bátsferð á einhverju síkinu sem hér eru. Vonandi halda allir dagar áfram að vera góðir hjá okkur eins og þeir sem hafa liðið hér í Köben. Vonandi verða þeir líka góðir hjá yður kæri aðdáandi.

6 Aug 2007

Kaupmannahöfn...

...þegar veðrið er æðislegt. Það er vægast sagt búið að vera gott veður í dag. Enginn hnoðri í norðri sem verður að veðri þótt síðar verði. Þetta hefur orsakað annan bruna á baki mínu. Nú er ég komin í annan náttúrulegan nærbol, spurning hvort ég lími ekki bara plástur yfir geirvörturnar, láti það gott heita og valsi þannig út á morgun. Ég varð fyrir uppljómun áðan. Ég var að hjóla í SuperBrugsen sem er búð á Njálsgötu. Ég þarf að hjóla í gegnum stíg og grjótlagða götu inni í miðri Kaupmannahöfn til að komast í þessa búð. Stígurinn er reiðhjóla og gangandi vegfarenda stígur og gatan er bara venjulega bílagata í miðju hverfi. Þetta er bara skemmtilegt, sérstaklega því ég mætti hestvagni á leiðinni og farþeginn var hundur. Svo lagði líka góða lykt frá veitingastöðunum í þessu litla sæta hverfi á Íslandsbryggju, mín megin við Artillerivej. Ég er alveg sannfærð um að þetta er besta staðsetningin í bænum, fyrir utan hið augljósa á korti, að við búum nálægt öllu, er að hér er smáhúsa þorp í skógarjaðrinum sem við sjáum útum gluggann þar sem fólk býr í litlum einbýlishúsum og er með fallegan garð og mikið af blómum, örlítið hippalegt. Hérna megin við Artillerivej höfum við svo götunöfn sem vísa í Íslendingasögurnar, Njalsgade, Gunnløgsgade, Bergthorasgade og svo náttúrulega Reykjavíkurvegur og Íslandsbryggja, afar hughreystandi í heimþránni. Í þessu hverfi eru að minnstakosti 5 búðir og 2 bakarí, 3 blómabúðir, pósthús, apótek og allt sem maður þarf. Fjöldinn allur af veitingahúsum og kaffihúsum sem myndar skemmtilega stemningu. Það er einskonar þorpsstemning hér, þorp í borg. Þar sem litu húsin eru í jaðri skógarins er náttúrulega skógur fyrir aftan og þar er hægt að ganga eða hjóla í gegn og þar er einhver hestabúskapur og reiðskóli, allavega angar annaðhvert barn sem kemur í strætóinn sem gengur hér alveg eins og kúkur. Ekki bara er allt fallegt hérna, skemmtilegt bland af gömlu og nýju, heldur má líka vænta þess að sjá ýmislegt hér í hverfinu, í morgun mætti ég t.d tveimur stelpum á hestvagni með póníhest spenntan fyrir..þvílík dásemd. Númm, til kosta mun líka teljast rokið sem er hér nánast alltaf. Það hindrar Íslendinga, sérlega þá sem hafa dvalið á Hvammstanga og á Völlunum í Hafnarfirði, í að drepast úr hita eins og var hér í dag. Þá er alltaf gott að hafa goluna til að kæla sig niður, fyrir utan að það er mikið minna um skemmtivini eins og geitunga og annan óþverra heldur en á öðrum stöðum þar sem er alger molla. Þá er einnig mjög fljótlegt að þurrka þvottinn.
Í gær skruppum við til Christianiu. Það er nú varla hægt að segja skruppum til...þetta er hér alveg við túnfótinn. Inn við fórum og skoðuðum venjulegar götur þar. Þetta er svo skemmtilegt, mörg hús undarleg í laginu og furðulega máluð. Allskins fólk þar eins og er trúlega eðlilegt fyrir Christianiu. Allir mjöööög slakir. Það kom á óvart hvað það var ekki ógeðslegt eins og mig minnti síðan um árið. Það var engin hlandfýla og Bóndinn fór með krakkana á klóið á einu kaffihúsinu og þar var allt spánýtt inni og hreint. Alveg hellingur af ferðamönnum þarna.
Afhverju skyldi maður vera extra hamingjusamur í góðu veðri? Er það birtan sem kemur af sólinni, hitinn frá henni eða hvað? Ef það er svoleiðis afhverju búa þá ekki allir í Ástralíu..eða þar sem er alltaf sól? Það er allavega gleðinni frá sólinni að þakka að ég missti mig ekki þegar ég fann fyrsta gráa hárið ....

2 Aug 2007

Myndir úr heimsókn

Nokkrar myndir frá heimsókninni.
Fyrst er mynd af rigningunni sem ég mátti sitja í meðan aðrir meðlimir fjölskyldunnar þóttust vera á hitabeltissvæði.
Gummi,Hinrik,Bryndí og Ásdís og Sunneva á leiðinni í Bakkann, falleg leið :) en löng ...

...svo Bryndís fór með eldri krakka í hestakerru.


Þarna eru þessi


Og þarna eru hin




Ég glæfraðist til að taka mynd í lestargöngum.

Skál í partýinu. Við átum lambalærið frá mömmu eldað að hætti Bónda og þá getur ekkert klikkað..alveg ógisslega gott..allir segja sís


Við geymdum börnin bara úti á svölum.

Annað að frétta er að ég fór með börnin þrjú í nestisferð áðan. Við fórum á Íslandsbryggjuna á leikvöll sem er þar. Þar átum við bollur og kex. Það er svosem ekkert merkilegt við þetta nema að ég var áreitt af 2 eða 3 ára barni með svaðalegan duddu munn. Fyrst komu tvær hvíthærðar litlar telpur og sögðu trekk í trekk " må jeg få en bolle"..ég reyndi að segja hvar mamma þeirra eða pabbi væru og þær ættu að spyrja þau..hvað veit ég nema hvíthærð börn séu með einhver fæðuofnæmi. Ég sagði "dú mo spörge din mor eller far" Þær litu á mig eins og ég væri úr öðrum heimi, sem ég kannski er, hver veit. Þá hvíslaði sú eldri og gáfaðari eitthvað að hinni og sú sagði við pabba sinn"far må jeg..." þá kom pabbinn og ég sagði "þei ar esking for sommþing" (afhverju sagði ég ekki bara "meiga þær fá kex") og ég hélt áfram og bauð þeim kex sem þær þáðu. Sú eldri fór en litla kvikindið hékk á mér eins og ég væri hunangsbúið hennar. Kannski eru danskir krakkar svona gráðug því daginn áður höfðum við líka farið og þá hafði strákur sem er trúlega eldri en Gummi hangið svona fyrir aftan og komið óþægilega nálægt og verið að strjúka nestispokann. Kvikindið byrjaði að spyrja um bollur aftur eftir að hafa kysst mig á öxlina, gefið mér glósur á dönsku um það að ég var ekki með hárspennuna mína í hárinu og reynt að fá mig til að koma og hjálpa því upp í rennibrautina "kom og hjelpe mig " sagði það. Það munaði svo litlu að ég hefði stokkið til, svo máttug var sannfæringar hæfni dýrsins. En rétt áður en ég þeyttist til og lyfti því upp rennibrautina, rann það upp fyrir mér að ég myndi aldrei sleppa frá því að setja það aftur upp bévítans stigann að brautinni og ég sem nennti ekki einusinni að hjálpa mínum eigins börnum þangað upp, þá hætti ég við, hunsaði það og sagði svo blákalt "nei, dú mo ikke fo mere bollllle"