29 May 2008

Fyrir Bryndísi

Sjáiði helgina?? Spurning Bryndís að þú þurfir ekki að smella þér í ljós í kvöld og réttáður en þú kemur til að venja þig við..hehe og svona er veðrið næstu daga. Jebbbí kóóóla

26 May 2008

Sindri og söngvakeppnin


Já. Það var s.s á laugardaginn sem ég gleymdi að svæfa Sindra (auðvelt því vagninn er jú brotinn). Af þeim orsökum steinsofnaði hann á gólfinu um klukkan 17...

Fyndið því það liggur Tópas við hliðina á honum. Það er ekki af honum skafið það er alveg á hreinu, því svo var hann svo eitur hress þegar kom að því að fara að sofa (eins og allir sem hafa verið með barn í sinni umsjá sem svaf á röngum tíma, vita). Þannig að hann kom fram, allur undarlegur á svipinn, hann veit jú að hann mátti alls ekkert koma fram. Labbaði í sófann og lagðist hjá Bóndanum og hafði hægt um sig... eða alveg þangað til Eurovision byrjaði. Fyrsta laginu munum við bara eftir því litla svínið söng af lífi og sál með. Verst þykir mér að hafa ekki náð því á vídjó, enda er það vonlaust verkefni að vera með kameru á börnunum allan sólarhringinn að bíða eftir að þau geri e-h fyndið. En hann söng, og það hástöfum. Ég grenjaði úr hlátri. Svo stökk hann fram á gólf (þegar hann taldi það öruggt að færa sig aðeins uppá skaftið, þó hann hefði stolist framúr) og byrjaði að dansa við lögin og klappa saman höndunum. Fyrir neðan er mynd af honum að horfa á Eurovision, gæti ekki verið meira áhugasamur.
Það er æði heitt á svölunum mínum. Þó það sé pissandi rigning í dag þá er dásamlega heitt þegar það er sólin. Það er reyndar svo mikil rigning að það er ekki hægt að fara út nema vera í polla galla og í stígvélum með derhúfu.
Um daginn léku þau sér í sandkassanum börnin. Þau grófu risastóra holu og lögðust í hana bæði. Svo hófust þau handa við að henda sandi uppúr kassanum, ég spyr afhverju, jú það var víst kattaskítur héldu þau í kassanum....sagði ég ekki í annarri færslu að ég hlakkaði til því það væri hugsanlega minni þvottur á sumrin, eða færri þvottavélar, því sumarfötin væru þynnri og kæmusta fleiri fyrir í vélinni? Það er firra því á sumrin eru öll föt útí hundaskít,kattaskít eða mannaskít. Mold, drulla, sandur og smásteinar berast inn og ég má hafa mig alla við, við að spreyja einhverju leysiefninu á veggi og hurðakarma til að afmá brún og svört fingraför...seisei

Að leika sér í lestinni. Gróðrarstöðin mín í baksýn. Ég er reyndar búin að grisja hana, þ.e ég er búin að fækka í pottunum svo það verði pláss fyrir alla uppskeruna og svo færði ég stöðina út á svalir.

Númm, allt er í góðum gír, merkilegt hvernig það er alltaf þannig að allt þarf að gerast á sama tíma. Það sem fyrirliggur er að æfa óstjórnlega, fór á 4 tíma æfingu með Blæserensemblet á laugardaginn..vó, skila síðasta verkefninu á önninni, fjarvera og meiri fjarvera hópmeðlima minna hefur orðið til þess að ég hef framleitt næstum alla vinnu og þar sem þetta er hópverkefni sitjum við í súpunni en þetta ætti samt að hafast, mæta í allar sumarveislur, foreldraviðtöl og annað húbbla í skólum krakkanna, tónleikar á laugardaignn næsta, og svo er það heimasíðan sem við Aldís erum að fást við, sem á að líta dagsins ljós í byrjun júní (kípíng mæ fingers krosst) og síðast en EKKI síst, þá eru Bryndís og Hugrún að koma á föstudaginn, jehúú.


23 May 2008

Kúl

“Just think how happy you would be if you lost everything you have right now, and then got it back again.”

~ Frances Rodman

(er ekki í umræðunni að við fáum þá hjólið til baka..??)

21 May 2008

Ajax og annar merkilegur óþrifi

Ég hef um árabil, eða alveg síðan ég byrjaði að búa sjálf eða í tæp 13 ár verið haldin miklu hreingerningar efna æði. Kannski er það komið til af því að ég lyfti aldrei litla fingri þegar ég var á Hótel Mömmu að ég finn mig knúna til að þrífa mikið með allskonar efnum. Fyrir skömmu ákvað ég, eða (ég ætla greinilega að nota mikið af orðinu "eða" í þessum pistli..) þegar við fluttum frá Hvammstanga og ég komst að því að ég átti dobíu af hreingerningarefnum, að snúa á þennan skæða vana minn.

Ég sá þegar ég flutti þaðan að ég átti alveg 5 gerðir af gólfhreinsi efni. Eina mjög dýra sem átti að þrífa hið gasalega dýrmæta "næstum því eins og alvöru parket" plastparket sem dekkaði gólfin þar. Mér fannst á þeim tíma sjálfsagt að kaupa þetta efni fyrst við vorum nú að fjárfesta í svona líka miklu eðal plastparketi...svo varð ég eitthvað leið á lyktinni af því og keypti í kjölfarið 2 tegundir af ajax með mismunandi lykt, það er jú svo heppilegt að kaupa sér ajax þú getur notað það allstaðar, ekki bara á gólf. Þá keypti ég líka flúx parketsápu, það er tilkomið af því að mér fannst ég jú vera með alvöru parket og skúraði gólfið mitt af mikilli alúð. Síðast en ekki síst keypti ég tegund af náttúrusulli einhverju sem átti að vera æði gott fyrir náttúruna þegar ég skolaði notuðu skúringarvatninu niður í klósettið.

Þá hef ég notað cif, jif, skúrepúlver og allskonar skúringakrem (hver fann uppá því eiginlega...) til að rífa skítinn af t.d baðkari, sturtu og klósettvaksi. Þrír til fjórir hálfir svoleiðis brúsar eru nauðsynlegir á hvert heimili.

Efni til að þrífa klósettskálina eru nauðsynleg af auðsjáanlegum ástæðum, allavega þegar strákar eru í meirihluta heimilis og náttúrulega alltaf bara. Það skiptir mig miklu máli hvernig lykt er af því og þessvegna hef ég oft á tíðum átt kannski 3 til 4 flöskur af svoleiðis því það er alltaf að koma nýtt svoleiðis í búðinni, annað hvort ný lykt eða með extra bakteríu útrýmandi áhrifum.

Svo hafa allskyns pennastriks,rauðvínsbletta,annarrabletta og lyktar..eyðandi verið keypt. T.d Leysigeisli, mr. Proppé (eða hvað hann heitir) og fleira útrýmandi. Það var reyndar kaldhæðnislegt að þegar við vorum nýbúin að kaupa ofan nefnt parket þá tók Gvendi fram rauðan Artline tússpenna (þá sem ekki eru ætlaðir börnum) og vandaði sig mjög við að strika með honum í allar raufarnar á parketinu.. að ég átti ekki neitt svona leysigeislaefni og neyddist til að hringja í mömmu L og biðja hana um að bruna yfir með Leysigeisla svo ég gæti tortímt tússinum. Geðshræringin alger, frábæra parketið ný komið á gólfið..og ég var nýbúin að þrífa blóð, svita og tár Bóndans af. (ég lýg náttúrulega með tárin, hann grætur ekki frekar en aðrir sannir karlmenn).

Og því ég er flutt í landið þar sem innfæddir hugsa ekki um annað en peninga og ég vill ekki stinga í stúf tók ég þá ákvörðun að kaupa ekki meira hreinsiefni fyrr en hitt af sömu tegund eða með sömu virkni er búið. Ég er búin að eiga einn gluggahreinsir í eitt ár..erða ekki merkilegt.

Hér er Hreinn
Um Hreinan
Frá Hreinsi
Til Hreinsis

O M G

Hvað á maður að halda þegar það þjóta og þá meina ég ÞJÓTA fram hjá manni 7 stórir, fullbúnir fullbúnum lögreglumönnum, lögreglubílar með vælandi sírenur og tilheyrandi önnur læti. (Verðlaun fyrir þann sem náði þessari setningu í fyrsta kasti).

Ég vorkenni bara fólksbílnum sem var á milli löggubíls númer 2 og 3..hann hefur ekki haft um annað að velja en þjóta bara áfram líka...

17 May 2008

Önnur útgáfa af píanóleiknum..leiknum af sinfóníuhljómsveit

Ykkur finnst þetta kannski ekki eitthvað til að nenna að hlusta á, en þið ættuð samt og þó hljóðgæðin séu klárlega ekki góð, þá er það samt þess virði. Nú hef ég spilað á þverflautu síðan ég var ég veit ekki gömul og samfleytt síðan 2003, það hefur opnað fyrir mér (og byrjar hin væmna aftur) heila aðra veröld af dásamlegheitum. Það er kúl að hlusta á rokk og popp og hvað eina en það er alveg spes að hlusta á klassík. Ég þarf að hlusta oft á sama lagið til að fatta hversu geðveikt, og þá meina ég GEÐVEIKT það er (þetta er eins og að byrja að reykja, engum finnst það gott í fyrstaskipti, en margir halda samt áfram ...) ég er að tala um gæsahúð niður í afturenda og upp aftur, tilfinning sem kemur á óvart. Ég skora á Hinrik til að byrja að hlusta. Gæti nefnt honum nokkur lög en bara ef hann tekur áskoruninni...komasooohhhh. Ef það hjálpar eitthvað þá er stjórnandinn frekar fyndinn í framan og í endann eins og hann ætli bara að ** það....

16 May 2008

Í Blæserensemblet spilum við verk efnit Mussorgsky, sem heitir Pictuers at an exibition. Við spilum 8 sett úr verkinu og hér er það síðasta sem við tökum fyrir . Upphaflega er þetta samið fyrir píanó eins og þessi er augljóslega að spila á... en með eindæmum flott verk.

15 May 2008

Þjófar og þorparar

Hvað haldiði??? Var ég ekki að segja frá því að Christiania hjólinu okkar hefði verið stolið? Þegar þorpararnir fóru inn í lokaðan garðinn þar sem Bóndinn vinnur og hnupluðu hjólinu...jú það er sko ekki langt síðan. Og hvað gerðist í nótt... aftur stolið. Ótrúlegt. Það lá bara sundur klipptur vírlás á jörðinni. Ég veit ekki alveg hve lengi eða oft ég get sagt að vonandi hafi þorpararnir bara neyðst til að ræna af mér hjólinu, þið vitið, til að eiga fyrir mat og svona. Og afleggjararnir alveg þrumu lostnir, komu upp með klippta lásinn og skildu ekki hvernig bófarnir eiginlega þorðu þessu, "vita þeir ekki að löggan nær þeim..". Gummi getur ekki sofnað núna, hann hefur svo miklar áhyggjur af þessu. Ekkert smáááá fúúúlt.

Gargandi fúlt. Kaldhæðnislegt að börnin vöktu mig svo oft í nótt, allavega 6 sinnum (pissa, drekka, drekka, pissa..dudda, dudda), afhverju kíkti ég ekki útum gluggann eiginlega og sá þá og ég hefði gargað DRULLIÐ YKKUR Í BURTU á íslensku auðvitað og kannski múnað á þá líka..ooooOOOOOOO

12 May 2008

Bojj..þetta verður löng færsla

Hvítasunnuhelgin, hér er þetta Pinse, ég veit reyndar ekki hvort það er það sama, en það gæti mjög vel verið. Ég fór aftur í Frederiksberghave á föstudaginn og nýtti tímann sem ég hafði til að læra. Það gerðu fleiri í garðinum, greinilegt að prófaundirbúningur er í algleymingi, get ekki sagt að veður íþyngi okkur í slíkum undirbúningi, þó ég sjálf byrji ekki fyrr en um miðjan júní. Númm eftir það fór ég að hitta afgang Félagsbúsins, það er ekki vegur að ég láti þau valsa stjórnlaus um Kaupmannahöfn. Þau voru við að versla sér ís þegar mig bar að garði eða réttara sagt bryggju. Þar stoppuðum við aðeins og þau sleiktu jarðaberja og sólberja ís og ég sleikti sólina. Þegar við komum heim fór ég útá svalir og lá þar í síðdegissólinni minni. Nú lít ég út eins og konan í There is something about Mary, s.s ekki eins og Mary (dæmalaust falleg blondína) heldur eins og Magda (sú með ofursóluðu plasthúðina..).

Og við fórum á carnival sem var í Fælled Parken í austurhluta Kaupmannahafnar (eða ég held að minnstakosti að það sé austurhlutinn) Þar voru margir. Þar voru ýmis sölutjöld og tívolí og hoppukastali og ýmislegt fleira, fótbolta mót en við vorum ekkert að taka þátt í því, þó ljóst sé að við hefðum rústað andstæðingunum.
Og Gvendi fékk far hjá mér. Hann er 7 ára og fílar ekki að ég, mamman (full af væntum þykju og stolti yfir duglegum og fögrum afleggjara), sé að kyssa hann á almanna færi.Og þarna voru súperkúl indjánar. Þeir voru að selja geisladiskinn sinn. Þetta er alveg heill þjóðflokokur sem var á amk tveimur stöðum á svæðinu. Þeir vinna líka á Strikinu. Þeir eru svalir.
Sunneva aftur komin heim til sín í trén. Þetta vatn er í Fælled Parken. Hún vildi ólm sjá gosbrunn sem var útí vatninu, sem minnti mig á áhuga minn á gosbrunninum sem var (eða er ..??) í tjörninni í Reykjavík. Hann var mikið flottari en þessi.Þegar við hjóluðum svo úr Fælled Parken, komum við við ...við ..í grasagarðinum að ósk Gvenda. Þar fórum við ,ég og börnin, og löbbuðum uppá fjall sem þar var að finna. Það er samt bara hóll með aragrúa af tegundum af ýmsum plöntum, alveg gríðarlega flott og góð lykt þar. Þegar við vorum búin að ganga "fjallið" þá hittum við Bóndann aftur sem hafði fangið fullt af bakkelsi. Þá settumst við í Rósenborgargarðinn og átum það. Þarna er Bóndinn hinn svali í þeim garði.
Þarna er Gróðrarstöð Félagsbúsins. Þetta flýgur alveg upp. Gott ef baunagrasið nær ekki nú þegar í gullpottinn í himnum.Og daginn eftir var förinni heitið á ströndina. Þangað höfðum við ekki komið áður. Á leiðinni sáum við vatn með andar, álftar og gæsarungum. Endilega að sýna börnum það. Okkur leist ekki alveg á blikuna þar sem allur skarinn sem svamlaði í róleg heitum á vatninu þaut uppúr og æddi í áttina til okkar...ein kom og hvæsti á mig..ég hvæsti bara til baka (ég meina, það kássast enginn uppá mig..
Þegar við komum á ströndina sem er á Amager, sést til Svíþjóðar og á flugvöllinn, var Sindri sofnaður. Við bjuggum til sóltjald handa honum.Og krakkarnir áttu heiminn.Og Sindri er sætur þegar hann er á ströndinni. Hann var nú pínu ringlaður þegar hann vaknaði en kom fljótt til :)Þarna er Bóndinn með afleggjarana í baði. Er þetta ekki fallegt á litinn?

Ok, þetta var kannski ekkert svo löng færsla, en löng helgi að baki og hún var frábær. Mamma hefur nú lagt af stað frá heimili sínu í Hafnarfirði og heyrði í ég henni á Dalvík í gær, svo ætla þau í NOrrænu og koma svo væntanlega til okkar uppúr 17.maí :) Næsti uppásetningur (sá sem sest uppá fólk ) mun vera frúin á Daggarvöllum og sú sem sýgur á henni brjóstin og þær koma í endann á Maí. Þær hafa ákveðið að koma til að heyra undurfagra flaututóna mína. Iceland Express er ekki hresst með hversu dræm mæting er...kommoooon.

10 May 2008

Nokkrar myndir

Hér er að finna nokkrar myndir frá okkur.

8 May 2008

Veðurfar

Enn af veðri. Ég þreytist aldrei á því að tala um veður.

Hnoðri í norðri verður að veðri þótt síðar verði. (segist hratt, aftur og aftur)

Það er þannig að Kaupmannahöfn er sprungin út. Fyrst byrjuðu kirsuberjatrén að verða bleik og einhver önnur tré að verða hvít. Þannig borgin var bleik og hvít. Þá tók allt brumið að verða að laufi og mý flýgur villt og galið um loftið og greip ég eina með augan um daginn. Þá kom svo mikil sól að ég hef neyðst til að fá mér lúr á svölunum um eftirmiðdaginn. Ekki bara það heldur hef ég nú hent öllum síðbuxunum mínum og langermabolum og fyllt fataskápinn minn af hnébuxum, pilsum og ofur kúl nærbolum. Þá er það greinilegt vor merki að Köbenhávnere eru farnir úr sokkunum. Ég gerði vísindalega rannsókn og í ljós hefur komið að helmingur íbúa Kaupmannahafnar er nú ekki í sokkum og gjarnan í opnum skóm. Þar á meðal ég, ég hef tekið fram "ámillitánna" skóna mína (nei, ekki milli stórutánna ..hvað varstu eiginlega að hugsa??) og sent múnbútsin, sem sannnarlega redduðu mér yfir veturinn, uppá hillu í geymslunni.

Annað mikið vormerki er að þær sem "hoppupp í bíla með hveeeeerjum sem er" á Skjaldbökugötunni eru búnar að renna niður fyrir brjóstaskorunni. Vonandi, þeirra vegna, verður meira að gera hjá þeim fyrir vikið.

Nú styttist óðum í að Sunneva kveðji leikskólann, 10 dagar og hún telst vera komin í skóla, þó hún byrji ekki að læra fyrr en í ágúst.

Ég spila tónleika 31.maí með Blæserensemblet, ef einhver ætlar að fjárfesta í flugmiða og hlýða á mig spila. Ég var rétt í þessu í sambandi við Iceland Express og þeir eru að setja saman pakkaferð fyrir þetta, innifalið er flug, gisting (að vísu hjá mér..) og miði á tónleikana (sem reyndar er frítt inná..).

Annað er að ég fór í ferð með strætó með afleggjarana þrjá lengst útá Amager. Þar er búð sem er eins og Blómaval þegar það var í Sigtúninu og heitir Amager Planteland (Plöntuland Amager). Þar örkuðum við inn og skoðuðum blóm og blómapotta. Ég hafði misst mig áður í annarri búð við að kaupa fræ (vorhugurinn í mér kallar eðlislega á að gera vorverk, svo sem eins og að gróðursetja) svo okkur vantaði potta til að setja herleg heitin í. Við fundum 3 potta úr leir og svo nokkra poka af sáðmold. Við hlóðum vagninn sem Sindri, ekki svo litli, sat/svaf í. Við fórum svo í strætó og sem betur fer komumst við þangað sem við komumst, s.s næstum því heim, því vagninn bara brotnaði. Aumingja Sindri sofandi, hlunkaðist niður. Ef ég hefði ekki verið með alla pottana undir hefði hann bara hrunið úr...og ef ég hefði ekki verið með pottana hefði þetta líklega ekki gerst..hehe. En við ræstum bara Bóndann út, þó hann hafi verið að njóta sín í sófanum með Einari (nei, þeir voru ekki að gera neitt "svoleiðis", ertu frá þér??) og hann kom og bjargaði okkur. Númm, svo gróðursetti ég. Ég gróðursetti: Tvær gerðir af baunum, tómatatré, kanil basilíku, venjulega basilíku, grasker, óreganó (sem óvart fór oní með basilíkunni= óreganíka..), rósmarín, timjan og sítrónumelissu. Ég veit nú ekki hvaðan ég hef þessa öfga..hvar ætla ég að rækta öll graskrin? eða baunatrén?

Það sem er gaman hér, er t.d um daginn þá stoppaði ég á torgi sem heitir Kultorvet, er við Norreport og tók með mér tvær fallegar risastórar Orkideur hvítar hjá blómasala í tjaldi.

Það sem er enn skemmtilegra er það sem ég gerði í dag og það var eftir skóla, því ég þurfti síðan að fara í spilatíma og það tók því ekki að fara heim á milli. Mér var bent á að fara í Frederiksberghave. Það gerði ég, lenti að vísu í að hjólið mitt bilaði. En það var lagað. Ég fór inní garðinn og settist á peysuna mína á hól sem var nýsleginn. Þarna var annað fólk líka, pía að læra og maður að lesa blaðið. Pían var á bikiníi og maðurinn á nærbrókinni..og þarna var fleira fólk sem sneri rassi með g-streng á milli kinnanna, á móti mér þegar ég kom inní garðinn.
Þetta var dásamlegt og svo var aftaka gott veður. Einstaklega gott veður. Verður það betra en að slaka á í fallegum grónum garði hjá riiiisastóru tré, í sólskini á nýslegnu grasi?
Það er sagt að fílarnir í dýragarðinum sjáist frá þessum garði, ég á alveg eftir að fara og athuga það.

Annað er bara í stuðinu hér.

2 May 2008

Pípandi fyndið

Mér finnst rigningin góð...lalalalalaaaa...o ó


Hekluhúsin. Tekið útum gluggann hjá mér eins og margar aðrar myndir. Ætlunin var að taka mynd af hellidembunni sem kom, en ég get ekki séð að hún sjáist beinlínis. Ef ég gæti tekið myndir af lykt, þá myndi ég pósta þær líka hér, það er bara eitthvað spes við útilykt þegar það er búið að rigna. Númm, það sem ég ætlaði að benda á að ef maður spáir í því þá er þetta ekkert fjarri tölvuteikningunni sem sjá má á síðu Hekluhúsanna.





Kannski sést rigningin betur á þessari mynd. Þarna gefur auðvita líka að líta nýju nágranna vora. Þeir vaka frameftir um helgar og fara snemma að sofa á virkum. Það er af sem áður var þegar ég og mennirnir sem elska hvorn annan í blokkinni á móti vorum þau einu sem ekki gátu sofið á næturna. Þeir ástföngnu fara að sofa á venjulegum tíma og ég hef ekki kompaní í andvökunni nema ég liggi í rúminu mínu og glápi á þessa ..hvað...kofa um helgar. Alveg glatað.

Við höfum verið að bíða eftir Einari Karli..sem nú er mættur :)