11 Oct 2007

Senn líður að brottför.

Á morgun spila ég með vinum mínum gamlingjunum í Consortgruppen í kirkju einhverri einhversstaðar og svo á öðrum stað sem ég man ekki hvar er. Á laugardaginn flýgur meirihluti Félagsbúsins til Íslands farsælda fróns. Það verða þá bara Bústýran og Örverpið eftir. Við Örverpi ætlum nú að hafa það ágætt á meðan, ég held að ég bjóði mér í heimsókn til Hlíf frænku og Claus. Þar sem ég er að verða uppiskroppa með mat þá ætla ég að mæta þar klukkan svona hálf sex, svo við fáum örugglega eitthvað að borða. Hinir, þá Bóndinn, Frumburðurinn og Hittfíflið (eða Heimasætan það má ráða) fljúga til Íslands um hádegið á laugardag, við mikinn fögnuð og alls engan flugkvíða Bóndans.

Á ég kannski að útskýra nafnið á Hinu fíflinu? Það er þannig að Bóndinn hefur allt frá fæðingu barnanna haldið því að þeim að hann sé Foringinn (ekki veit ég afhverju því það er varla augljósara að ég er foringinn). Og svo þegar þau komust til ára (ég nefni ekki "til vits og ára" strax) þá fóru þau að góla með honum. Hann fór " hver er foringinn?" og þau gerðu "pabbbbbi" og svo sagðist Gummi vera Prinsinn eða Kóngurinn. Þá heyrðis í Sunnevu (eða Sunnefju eins og hún amma Ásta kallaði hana einhverntíma :) " og ég er Hitt Fíflið". Þetta átti að sjálfsögðu að vera Hirðfíflið en við erum ekkert að breyta því núna.

Þau fara s.s héðan um eitt og eru lent um hálf þrjú heima á Íslandi. Þau ætla að vera fyrir sunnan hjá Aðalömmu og fyrir norðan hjá Eðalömmu. Aðalamma sækir þau í Keflavík og ég held að Bóndinn ætli að bruna strax til Föðurhúsa í Hveragerði og þaðan á Kaffi Síróp að fá sér tvöfaldan latte væntanlega í glasi en ekki bolla.

Ég hlakka til að þau séu ekki heima í tvær vikur. Ekki svo að skilja að ég vilji ekki hafa þau hjá mér, síður en svo. Ef einhver er hneykslaður á því þá verður sá hinn sami bara að eiga það við sjálfan sig. Það verður gott fyrir Félagsbúið að fá smá frið fyrir hvort öðru, þó að ég og Örverpið fáum ekki pásu á hvort öðru. Enda er það nú bara búið að vera svoleiðis að ég hef þurft að rífa hann lausan af rassgatinu á mér á kvöldin, svo samgróin erum við orðin eftir þennan tíma.

Annars fór ég á æfingu áðan með Blæseressembled. Það er blásarasveit Musikhøjskolen..s . Það eru 4 þverflautur, eitt óbó, tvö fagott, 3 klarinett og eitt bassaklarínett. Bassaklarínettið nær frá munninum á mjög stórri konu og alveg niðrá gólf. Svolítið eins og ofvaxinn saxafónn. Á klarínettin spila tvær unglingsstelpur. Þær sitja hoknar í baki og flissa. Á bassaklarínettið spilar eins og ég sagði áðan stór kona með grænblá gleraugu. Á fagottin spila maður og svo stelpa sem er örugglega á mínum aldri eitthvað. Þau eru líka bæði rosa stór, enda fagott stórt hljóðfæri. Þá kemur maður á óbóið. Hann er með skrítin augu og kom með köflótt teppi til að setja undir rassinn á sér. Þá kemur ólétt kona á þverflautu og mamma hennar er íslensk en hún talar ekki íslensku, þá konan. Þá kemur önnur unglingsstelpa sem spilar líka á þverflautu, hún er örugglega ágæt... þá kom ég og svo kom Pernille, líka á þverflautu. Pernille og sú ólétta voru að kaupa sér nýjar flautur, ég öfundaði. Samt veit ég ekki hvort ég gæti fengið mér nýja, mér þykir svo vænt um mína flautu og er náttúrulega orðin vön henni. Kennarinn er rauðhærð kona sem er afar lík Hjördísi sem var deildarstjóri í Blómavali um árið. Þetta var ógisslega gaman. Ég ætla pottþétt að halda áfram í þessu.
Hej

3 comments:

Ellan said...

Hvenær eruð svo þú og örverpið væntanleg heim á frón?

Síðan þyftum við Dísa náttúrulega að kíkja aaaaaaðeins í Köben :)

aldisojoh said...

ég veit... það er orðið algjört möst... húsmæðraorlof...

Bústýran said...

kæru klobbar :)
Vonandi kem ég sem fyrst að hitta ykkur. Örverpið kemur ekkert með, nema hann sé þá orðinn varanlega gróinn við afturendann á mér. Og þið eruð ávalt velkomnar.