17 Jun 2008

Ekki minn þvottur

Svo var það fyrir átta árum
að ég kvaddi það með tárum
að brjóta saman Bóndans þvottinn
hann yrði bara' að vera (kaldur og) loppinn
ég hjarta mínu fylgdi á meðan...


Hver veit nema (fata)skápurinn okkar
(efnis)lítill kjóll og (hné)háir sokkar
hittist fyrir hinum megin? (ef hann er í efnislitla kjólnum og hnéháum sokkum..þá held ég ekki..)
þá getum við í gleði okkar
keypt okkur konu sem sér um þvottinn...ég yrði svo fegin.

Það var hinsvegar um daginn að ég held að ég hafi gefist upp á að brjóta ekki saman þvottinn hans Bónda. Ég tók þá ákvörðun eins og segir í kvæðinu hér að ofan að brjóta ekki saman þvottinn hans, hann væri jú fullvaxta maður sem ætti bara að sjá um þetta sjálfur. Enda við komin með börn og alltof margar spjarir til að brjóta saman... það var í sjálfu sér kannski ekki aðal vandamálið, heldur að halda síðan öllu í röðinni í skápnum.
Ég hef sagt við hann síðan við bjuggum á Kirkjuteignum (við skulum athuga að það eru 10 ár síðan það var) hvort hann vilji ekki grysja úr fötunum sínum, það sem hann er að nota og ekki. Ég hef endurtekið þetta í hvert skipti sem ég hef staðið bölvandi og ragnandi yfir árans fatahaugnum hans, sem þó er troðið mjög vandlega inní skápinn. Og þá hef ég rifið fötin úr skápaplássinu hans. Það er goðsögn að ég eigi svo mikið af fötum og hann svo lítið að hann þurfi bara eina hillu fyrir sín föt en ég heilan skáp. Ég þarf að vísu heilan skáp, það er því allt raðað eftir gerð (þið vitið,buxur,bolir,langermabolir,peysur...) og það er enginn vandi fyrir mig að taka úr skápnum það sem ég þarf að nota. Skápaplássið Bóndans hefur hægt, en örugglega verið að breytast yfir í 3 hillur. 3 hillur fullar af samankuðluðum fatalörfum síðan í Nam. Aftur að því þegar ég ríf fötin hans úr skápnum. Ég tæti þau út. Fryst koma öll semi hreinu fötin, þau sem hann fer í eftir vinnuföt og notar bara í 3 tíma á dag. Þá vella út allir bolirnir sem hann sjálfur hefur rifið úr skápnum og farið í en hætt svo við og troðið þar inn aftur. Á eftir ónotuðu, samt krumpuðu bolunum koma allar nærbuxurnar og allir sokkarnir (athugið að það er allt vel saman brotið af mér) sem dauðaleit hefur verið gerð að og í sumum tilfellum farið í skítugu sokkana aftur (ég reyni að forðast umtal um skítugar nærbuxur hér á veraldarvefnum). Það var jú allt falið á bak við það sem þegar er upptalið. Síðast en ekki síst eru það 20 gallabuxur, 20 bolir og 20 langermabolir sem sitja sem fastast, enn saman brotnir síðan í síðasta kasti, aftast í hilludruslunum.
Það sem ég gerði núna síðast var að ég tók allt sem hafði ekki verið hreyft. Þið hefðuð átt að sjá upplitið á Gvenda við að þvottafyrirmynd hans skaust eins og einhver væri á hælum hennar fram í skúffu til að ná í svartan ruslapoka.. og ég hljóp inní herbergi aftur öll kindarleg á svip, því ég vissi jú að svarið yrði það sama hjá Bónda, að hann ætlaði alveg að fara í að sigta fötin... Markmiðið var að koma fötunum í pokann án þess að hann sæi og að Gvendi, hinn ljóshærði, myndi fást til að halda sér saman um atvikið. Það tókst í svona eina sekúndu. Aumingja Gvenda varð svo um uppátæki þvottakonunnar að hann rauk fram og gargaði að ég væri að henda fötum Foringjans... sem sagði reyndar ekki neitt. Örugglega dauðfeginn að ég á ekki eftir að segja þetta aftur því nú hef ég gefist uppá að gefast uppá að brjóta saman þvottinn hans og vill heldur horfa á fataskápinn í röð og reglu heldur en að reyna að ala manninn upp, það var ekki mitt hlutverk heludr,þó þvotturinn kunni að vera það.

4 comments:

Anonymous said...

gangi þér vel með þvottinn, elskan! njóttu þess bara að brjóta saman fötin af manninum þínum, þessari elsku :-)
ástarkveðja,
mor

Anonymous said...

hahaha gat ekki annað en skellt uppúr :) kannast eitthvað við lýsinguna á fataskápnum :)
humm það er spurning með uppeldið á drengnum !!! :)
ástarkveðja
Lóa

Bústýran said...

hehe, hann er sko fínt upp alinn blessaður,hann hefur bara þróað með sér einhverja þvotta leti enda heitir bann Þorvaldur Björnsson ekki Þvottabjörn..son (ég er alveg að reita af mér brandarana núna, er það ekki..úff)

Anonymous said...

Ju hvað ég kannast við þetta - mætti halda að Bóndinn og D-drengurinn væru eitthvað skyldir, þeir hafa allavega sömu fataskápatendesana...