28 Feb 2008

Það er mjög óþægilegt þegar maður er svikinn, prettaður, sár, reiður og fokreiður allt í senn. Eins og þegar stóru hjóli er stolið af manni. Þessvegna tókum við þá ákvörðun strax á mánudaginn að hugsa hjólstuldinn þanng að það hafi sennilega verið svo bláfátæk manneskja sem hreinlega neyddist til að gera þetta til að nálgast peninga til að framfleyta börnum sínum eða hjólastólsfastri langömmu sinni sem ekki fær elliheimilispláss. Það er mun auðveldara heldur en að hugsa sem stífas um þessa "dj "#%$/#&$(/% he"#&/$# an"#(/)/$ bj"#(/)#$/ sem hafa ekkert betra við daginn að gera en að ræna frá fólki. Ég reyni reyndar að halda mig alveg frá því að hugsa svoleiðis, þá verð ég nefnilega alveg öskureið, það nennir því enginn..hehe


Þessa dagana er það bara skólinn og aftur skólinn, ég er að búast við að það verði svoleiðis bara þangað til ég er búin með þetta, Bónda til mikillar ánægju eða þannig. Það er ekki að hann vilji að ég komi í sófann að kela eða svo hann geti nuddað bólgnar axlir mínar af setu (já af setu) heldur vill hann sjálfur komast eitthvað frá eldamennsku, svæfingum og uppþvotti.... hvaða rugl er nú það??


Ég hef verið að læra bæði í senn útlitshönnun vefsíðna og síðan að láta þær virka með html og css sem eru tölvutungumál og ég get ekki útskýrt neitt frekar. Það er bæði jafn gaman. Merkilegar andstæður, annað er að sleppa ímyndunar aflinu lausu og hitt er að njörva sig niður við svo strangar reglur að það getur ekki verið ein einasta villa, þá virkar bara ekki neitt.


Nefnd sem látin var kanna möguleika á páskaferðalagi hefur skilað niðurstöðum. Félagsbúið á að fara til Íslands og vera þar yfir páskana. Ákveðið hefur verið að búið noti bara einkaþotuna sína, þar sem hún er ekki í útleigu á þessum tíma. Eini gallinn við einkaþotuna var að það vantaði klósett pappír á klósettin í henni. Þessvegna hefur nefndin sett inn sérákvæði um það að höfuðstöðvar Félagsbúsins skyldu leigðar út til þeirra sem gætu haft þörf fyrir það á meðan við erum á Íslandi, í því skyni að afla fjár til pappírskaupa.

Og til að þakka Ásu fyrir pakkann, sem orsakaði öfund mikla af heimilisföður á AHG (múúúhehehe) þá er hér skaðabótamynd af henni, Ásu þá, í staðin fyrir lestarstöðvar myndina í fyrri færslu. Sjáiði bara hvað þær eru fagrar þarna, ha, ég held þær séu á Bifróhúbbla einhverju þær Ása og Aldís vinkona.

Það er kannski rétt að geta þess að ég rændi þessari mynd af síðunni hennar Aldísar.

Músí mús.

25 Feb 2008

Danskur lestur á íslenskum stöfum

Jú, ég var að uppgötva það bara núna rétt í þessu að Gvendi er búinn að vera að rembast við að læra að lesa í allan vetur. Hann kann alla stafina og er ekkert að fela það og leiðréttir hiklaust okkur hin sem ég held að hans mati séum eitthvað af annari sort.
Það sem ég uppgötvaði er að hann er alltaf að lesa á dönsku, íslenskan texta... ég hugsa að ég neyðist til að kaupa handa honum danskar bækur til að æfa sig að lesa er það ekki, það er bara rugl að reyna að lesa á dönsku íslensku...

Annað og verra....miiiikið verra...
Við vorum rænd. Og það í dagsljósi, og það var meira að segja bara hádegi þegar dagsljósið var. Einhverjir rugludallar hafa tekið stóra hjólið okkar ófrjálsri hendi, bara kippt því með sér eitthvert annað. Hvað gerum við nú til að ferja börnin þangað sem þau þurfa að komast, eða til að kaupa eitthvað mikið í búðinni?
Súr er ég yfir þessu.

24 Feb 2008

Undanfarið

Þó ég hafi ekki röflað um það hér þá höfum við nú verið að gera ýmislegt.




Til að mynda þá kom Ása systir í heimsókn. Ása kom með Hafstein með sér sem hér eftir verður nefndur Dekurbarnið. Það fer vel á því að vera með Dekurbarn í flokki með hinum rugludöllunum, Prinsinum, Varðhundinum og Hinu Fíflinu. Ég hef nú hafið formlega leit að góðum myndum af þeim systkinum, til að sýna fram á og sanna kenningu mína um miðjubarnið sem er öðruvísi. Þau komu með herkjum því það var jú geggjað veður heima á Íslandi. Þau komu að mig minnir uþb sólahring síðar en þau ætluðu. Það var í lagi í ljósi þess að þau framlengdu bara ferðina og voru hjá okkur til þriðjudags sem var vitaskuld frábært. Á laugardeginum fórum við til Malmö.



Hér fann ég eina mynd af Jóhannesi, ekki besta myndin af honum enda er hann eitthvað hneykslaður á svipinn.



Við Sunneva vorum þarna líka, þá á leiðinni til Svíþjóðar. Af því ég er svo mikill eyjaskeggi (þó ég viðurkenni ekki fyrir neinum að ég sé í alvöru með skegg..) þá finnst mér alveg merkilegt að getað hoppað uppí lest og verið bara hálftíma að komast yfir í allt annað land. Maður getur kannski ekki sagt að Svíþjóð sé allt annað land, því þetta er jú svipað allt saman en það var samt annar andi þar heldur en hér í Köben eða heima á Íslandi. Mér fannst tildæmis við fyrstu sýn fólk vera hávaxnara í Malmö og svo var að sjálfsögðu önnur lykt þar heldur en hér. Viðurðum samferða lúðrasveit í gegnum göngugötuna í miðbæ Malmö. Og krökkunum fannst gaman. Þegar við vorum búin að hafa þau í hæfilega stuttu bandi eiginlega allan daginn þá slepptum við þeim lausum og þau fríkuðu út í einum af gosbrunnunum sem eru þarna. Sem betur fer var ekkert vatn í brunninum. Það var áberandi hvað það var mildara veður þar, það var nístingskuldi í Köben en svo var ekkert mál að vera úti í Malmö og krakkarnir þeyttu af sér úlpum og húfum.
Á Sunnudeginum fórum við út að borða, þá við Bóndi og Ása og Dekurbarnið. Við fórum á Beef´n Reef. Það var hreinasta snilld. Ég sýndi á mér nýja hlið og át kengúru, emúa og krókódíl. Allt alveg fáránlega gott.

Hér er svo Varðhundurinn. Hann fékk klippingu á dögunum og er nú voðalega herralegur. Þarna er hann að gera grín.

Við höfum náttúrulega haft það frekar gott hérna undanfarna daga. Mikið að gera í skólanum hjá mér. Nú er nýafstaðið vetrarfrí hjá krökkunum. Merkilegt með öll þessi frí, sumarfrí, haustfrí, jólafrí, vetrarfrí og páskafrí sem við ætlum vonandi að nýta í eitthvað rohooosalega skemmtilegt.



21 Feb 2008

Maður frá Gana

Það er maður frá Gana ástfanginn af mér, eða ég held það. Nú er ekkert annað í stöðunni að við Bóndi flytjum með honum þangað. Er ekki annars fjölkvæni eða ætti ég að segja fjölmenni í Gana??
Ég sé fyrir mér að þeir muni verða bestu vinir Bóndinn og sá frá Gana. Þeir færu út að veiða saman, þið vitið með löngu spjóti og verða að vera snöggir að stinga niður til að ná fisknum. Þá myndu þeir koma heim í bastkofann voða stoltir af sér með fiskinn á öxlunum. Ég og börnin værum heima og værum að slétta moldar gólfið með sköfum gerum úr fiskbeini og tré. Þau myndu kannski skafa og ég moka út eða þau gerðu bæði og ég myndi fara í sólbað í hengirúminu okkar. Svo myndum við elda fiskinn fyrir utan kofann yfir varðeldinum sem ég eyddi hálfri nóttinni í að blása á svo hann myndi haldast lifandi.

Nú er ég hinsvegar í pásu í fyrirlestri um stíl, fagurfræði, smekk og Gestalt lögin. Nei Gestalt lögin eru ekki sönglög og heldur ekki lögfræðilög. Þau eru uppröðunar lög.

Fleira merkilegt fer örugglega að gerast bráðum og nóg er af verkefnum framundan, þannig á það líka að vera. Ég hef örugglega 100 sinnum sagt það og örugglega hugsað það 100 sinnum oftar en það að NÚNA er ég á réttri hillu. Loksins kom að því... en það gæti auðvitað breyst þessvegna á morgun...

20 Feb 2008

Ég veit um íbúð á alveg ágætu verði hér í köben yfir Páskana ef einhver hefur áhuga á því, eða ef sá einhver veit um einhvern sem jafnvel veit um einhvern sem veit um einhvern. Einhver gæti þá verið bara í bandi við mig í tölvupósti á nitta@paradis.dk eða í íslenska símanúmerið t.d, vill ekki setja það á síðuna...svo notið tengslanetið og komsit að því, eða sendið mér hugskeyti, ég er afspyrnu góð í að taka á móti svoleiðis og svara á móti með hugskeyti....þið getið líka reyna að giska...

19 Feb 2008

Ef ég væri...

...söngkona þá væri ég pottþétt blúsari.

17 Feb 2008

Annað að gera

Það er bara svo rosalega auðvelt að gera eitthvað allt annað en maður samkvæmt öllu ætti að vera að gera.
Tildæmis væri ekki verra ef ég væri að lesa nokkrar af þessum 125 blaðsíðum sem ég þarf að lesa fyrir morgundaginn og klukkan orðin 10 og meira að segja gleraugun eru hætt að virka sem einhver hjálparhella við að halda augunum óþreyttum. Ég er alls ekki vön því að þurfa að lesa nokkurn skapaðan hlut í námi mínu, eða jú þannig, bara ekki svona mikið. Og finnst það satt að segja ekkert rosalega skemmtilegt, las t.d eina síðu í dag í sófanum og vaknaði svo einum tíma síðar, enda hef ég alltaf sagt að ég væri lengi að lesa...það er útaf þessum rokna leseiginLEKA sem ég myndi trúlega aldrei getað lesið til hjúkku, lögfræðings, viðskiptamanns, stjórnmálafræðings, líffræðings eða nokkurs fræðings yfir höfuð. Mikið er erfitt að halda sig við les efnið..

Annað sem ég eins og örugglega allir aðrir, þarf að gera er að fara í ræktina, hætta að borða allt nammið, borða hollan, ekki garga á krakkana, skemmta mér og fleira gæti ég talið upp.
Í staðinn sit ég hef slakað svo svakalega á í vöðvunum að nú get ég látið vömbina liggja svo fallega á lærum mér að ég þarf ekki lengur að vera í nærbuxum (sparnaður..)
Ég hef aukið nammi átið um einn m&m poka á dag, einn gulan og einn brúnan (kaupi það í staðinn fyrir nærbuxurnar)
Ég hef eiginlega ekki farið í yoga eða eitthvað sem talist gæti líkamsrækt síðan í júlí. Þó náttúrulega hjóla ég að meðaltali klukkutíma á dag, það hlítur að teljast til einhvers.
Bóndinn eldar alltaf dýrindis mat og það er í 99% tilfella salat með og við úðum í börnin salati og ávöxtum, en það var ekki fyrr en um daginn að ég fattaði að ég borða eiginlega aldrei ávextina og hef aldrei bara einn nammidag eins og ég skipa þeim að hafa.
Börnin eru farin að ganga með eyrnatappa og Bóndinn líka.
Við fórum út um daignn að vera "fullorðin" í fyrsta skiptið saman á sunnudaginn síðasta, síðan við fluttum til Danmerkur...við fórum út að borða með Ásu og Hafsteini. Það má segja að ég sakni frelsisins sem við höfðum á Hvammstanga og í RVK líka.
Næst á dagskrá hlítur að vera að fá sér barnapíu, auðvitað hef ég opnað styrktarreikning fyrir það líka eins og símareikninginn í sumar.
Tælensk kerling...

16 Feb 2008

Hvar er húfan mín, hvar er hatturinn, hvar er....

...gamla en svo mjög ágæta ensku orða bókin mín,
já hvar er hún nú,
nú skalt leita þú,
hún er svört og brún og þykk og bara rosa fín
(lag: þarna úr Kardemommubænum..þegar ræningjarnir eru búnir að týna öllu)

Annað erindi skal innihalda upplýsingar um hvar bókin er.

12 Feb 2008

Þvottaleiðbeiningarmiði

Þetta blogg átti svo sannarlega ekki að vera um neitt leiðinlegt. Leiðinlegt finnst mér t.d þegar fólk telur upp hvað það át í hvert mál alla dagana, hvað það þvoði margar þvottavélar og hversu oft það fór og "hægði" á sér. Ég hef hinsvegar smá þvottapælingar (eruði ekki fegin að ég ætlaði ekki að segja neitt um að "hægja" á sér...). Þegar ég tek af sængunum verin vill ég að þau þvoist á röngunni svo ég brjóti þau síðan saman á röngunni svo ég geti sett sængina beint í, þegar þau eru þornuð...á röngunni. Aðeins reyndar húsmanneskjur (nú á dögum þýðir ekkert að segja húsmóðir eða húsfaðir, það er bara kynjamisrétti) vita hvað ég er að tala um, það er auðvitað ekki á allra færi að framkvæma svona úthugsaðan verknað eins og að flippa sængurverinu yfir sængina í einu handtaki. Það sem gerist hinsvegar alltaf er að annað sængurverið snýr rétt þegar það er komið úr þvottavélinni og ég get lofað því að ég lét þau bæði snúa röngunni út áður en ég tróð þeim í vél. Þetta er eitthvað til að pæla í.

4 Feb 2008

Fyrsti skóladagur

Jú, það var sko ágætt fyrsta skóladaginn. Nú er ég orðin svo vön í að mæta eitthvert í fyrstaskiptið að ég varð ekkert stressuð þó mér hafi mistekist að fara á réttum stað úr strætó í morgun og horfur voru ekki aðrar en að ég kæmi of seint. Ég rétt skaust inn 1 mínútu yfir 9, það var í lagi því það var ekki byrjað að kenna, eða kynna frekar, dagurinn fór bara í að kynna námið og kynnast samnemendunum. Ekkert nema gott um þá að segja, nokkrir Íslendingar og eiginlega svo bara einn eða þrír frá mjög mörgum öðrum þjóðernum. Örugglega 10 þjóðerni, ef ekki fleiri. Það myndast að mínu mati strax mjög spes stemmning þegar það er saman komið svona margt fólk af mismunandi toga.
Fyrsta verkefnið er að gera hópkynningu og skal hún framberast á fimmtudaginn.
Fyrsta "busa" ferðin er um helgina en ég fer ekki. Mér finnst ekkert spes að fara "eitthvert" sem ekki stóð hvar var í kynningarbréfinu og vera þar með 60manns sem ég ekki þekki yfir heila helgi. Í kynningarbréfinu var lögð rík áhersla á það að þeir sem myndu reykja ættu að hafa það í huga að fyrirhuguð staðsetning væri ekki í návist við sjoppu eða búð.
Fyrst fórum við í kynnisleiki, þ.e við áttum að finna landa okkar og mynda hóp, raða okkur í aldursröð, raða okkur í stafrófsröð eftir fornafni og þannig.
Þá vorum við teymd í túr um skólabygginguna. Ekki svo stór bygging svo það var í lagi. Þarna á hver hópur sína stofu. Þarna er mötuneyti og þarna er líka herbergi sem kallast "chill out" eða "taka því rólega" herbergið. Þar inni er starfræktur Föstudagsbarinn. Hann er opinn frá 13 á föstudögum til 18 sama dag. Þar inni er lyktin eins og á Þinghúsinu sáluga (en endurlífgaða undir öðru og betra nafni) á laugardögum klukkan 7, þegar við vorum gjarnan að skúra með annaðhvort sand í augunum af þreytu því við höfðum ekki farið að sofa um nóttina eða við vorum með stýrur niður á kinnar því við rifum okkur upp til að fremja gólfþvotta fyri opnun í hádeginu. Sem sagt gömul og þung bjórlykt sem ekki er hægt að ná af.
Mér finnst náttúrulega merkilegt að það sé sérstakt drykkjuherbergi í skóla. Eða að það sé yfirleitt eitthvað um reykingar tekið fram í kynningarbréfi fyrstu busaferðarinnar. Sinn er siður í hverju landi mætti kannski segja.

Sindri er hér vakandi þó klukkan sé kvöld. Hann hefur tekið þvílíku ástfóstri við kínaskóna sína að hann neitar að fara úr þeim og sefur þessvegna í þeim. Er ekki merkilegt hvað hann getur verið sætur.
Gummi fór sem einhver agalegur sverðmaður í skólann í dag í tilefni af Fastelavn/Öskudagsskemmtun.
Sunneva fór sem Bratz stelpa á föstudaginn í sinn skóla af sama tilefni.
Rolan ég gleymdi að veifa myndavélinni svo ég neyðist eiginlega til að útnefna miðvikudaginn, sem er jú hinn rétti Öskudagur, sem búningadag hér heima svo ég geti tekið af þeim mynd og jafnvel sett Sindra í Íþróttaálfsbúninginn.

Bolludagur er vissulega í dag. Í gær gerði ég tilraun til bollubaksturs sem mistókst hrapalega. Í dag gerði ég aðra tilraun og sú tókst ekki betur... þessvegna er ég svo þakklát fyrir uppskriftabókina sem Pálína frænka mín sendi mér með Mömmu R þegar hún kom. Bókin er bæði flott og gagnleg, verst það er ekkert um bollur í henni og þessvegna neyddist ég til að nota bakarainnsæi mitt til að töfra fram bollu uppskrift, því miður hafði ég auðvitað týnt töfrasprotanum mínum og því fór sem fór. Ég man það náttúrulega núna að ég á bakara fyrir frænda. Þegar ég finn töfrasprotann aftur þá töfra ég hann hingað yfir til mín og sannfæri hann um að baka fyrir mig bollur. Svo töfra ég hann aftur til baka áður en Bóndinn kemur heim svo hann fari ekki að grenja enn eina ferðina yfir vonleysi mínu við eldavélarofninn.

Og þá fáum við gesti á fimmtudaginn. Þá koma Ása systir Þorvaldar og sonur hennar Hafsteinn. Þar með sannast enn og aftur kenning mín um að miðjubarnið sé öðruvísi í útliti en hin tvö, séu systkini amk þrjú. Ég var nú búin að kynna þessa kenningu mína fyrir einhverjum en hún er sú að elsta barn og yngstabarn eru líkari hvoru öðru og miðjubarnið er öðruvísi. Það sést einmitt ágætlega á þeim systkinum Ásu, Þorvaldi og Jóa Búbbabörnum. Ása og Jói eru há og mér finnst þau vera lík. Þorvaldur er hinsvegar ekki hár og miklu líkari Auðunnarstaðagenginu heldur en þau hin. Þetta má líka sjá á Gumma, Sunnevu og Sindra, strákarnir eru líkir en Sunneva öðruvísi og er oft á tíðum klárlega barnabarn afa Búbba.

Smá yfirlit yfir það nánasta:
Bergur Tómas, Gylfi og Guðjón
Brynjar, Otri og Hófý
Halldór, Þórarinn og Páll Ármann
Þóra Hlíf, Eydís Eir og Eygló
Fleiri?

2 Feb 2008

Nettó

Var ég búin að segja frá starfsfólkinu í Nettó?

Nettó er ein af hverfisbúðunum. Þar er náttúrulega starfsfólk. Starfsfólkinu svipar pínulítið til Bónusafgreiðslufólks, ef einhver skilur ekki hvað ég er að meina eða er móðgaður þá bara sendir sá hinn sami mér tölvupóst og við útkljáum málið.
Það er ekkert óalmennilegt starfsfólkið, það er ekki það. Það er bara svo mis eitthvað. Ein þarna er með alveg stutt hár, hvítt, þá aflitað, en svo er hún líka með hárviðbætur sem ná alveg niður fyrir brjóstahaldaralínuna. Verst er að hárið á henni er hvítt en viðbæturnar eru svona gulleitar og það sést svo verulega að þetta er ekki alvöru og það sést líka við hauskúpuna á henni hvar viðbæturnar eru festar við. Mér stóð nú bara ekki á sama þegar ég kom auga á þetta. Þá fór ég að horfa meira á þessa píu/konu. Þá labbar hún alveg eins og hún sé með eitthvað fleira á milli stórutánna heldur en eðlilegt getur talist. Ég held að hún sé bara svona venjulegur bútiks assistent (það er til butiksassistent, 1.assistent sem er sennilega hærra settur og svo butikschef sem er yfirmaður í hverri búð fyrir sig) Því þarna er líka kona sem er butikschef. Hún er með svart (litað) hár, þverklipptan topp sem nær alltaf oní augu, líka þegar hann er nýklipptur og hún er með lokk í nefniu þó hún sé klárlega yfir fimmtugu. Ekki það að ég ætli endilega að skafa af mér húðflúrin eða láta græða skinn yfir gatið sem ég er með í nefiu þegar ég er orðin 49 ára...eða hvað veit maður, kannski ég láti gera það bara um leið og ég læt strekkja svo vel á mér að ég á ekki eftir að getað lokað augunum.
Þá er þarna Morten. Hann er dökkhærður og með rooosalega djúsí bólur af og til. Þær eru næstum eins og rjómatertur, úff. Og síðast en ekki síst verð ég að telja tilefni þessarar færslu. Ég hef bara ekki getað tekið eftir því hvað aumingja strákurinn heitir, það kemur aðallega til af því að hann er með svo mikla flösu að það er eiginlega ótrúlegt. Það liggja á peysunni hans stórar flyksur (ég fæ klíkju bara við að skrifa orðið flyksa í þessu samhengi, jakk) hvítar og gular í senn. Það er ekki bara úr hárinu á honum sem flyksurnar koma heldur líka úr augnbrúnum og skeggi. Einhverntíma höfðu flyksurnar gleymt að detta úr skegginu og héngu bara í því ... hann er örugglega með svæsið exem blessaður drengurinn. En þetta er voðalega ógisslegt þegar ég er búin að versla kjúkling kannski og salat og ætla að hafa parmesan ost með.... aukalegt vandamál þessa flösudrengs er svitalyktin af honum. Hún er svæsin, ekki veit ég hvernig hann ætlar að kyssa nokkra manneskju.

Annars var ég í dag í spilatíma löngum. Það var loka æfing fyrir morgun daginn en þá er tréblásturshljóðfæradagur í tónskólanum. Við spilum 4 þætti úr verki eftir Mussorgsky, sem heitir Pictures at an exhibition. Mussorgsky er rússneskur. Mér finnst það ótrúlega skemmtilegt.

Svo er það bara skólinn á mánudaginn.