31 Oct 2007

Er vatn hugtak?

Rétt upp hend sem eru sammála mér í því að vatn geti ekki verið hugtak.

28 Oct 2007

Svo margt, svo margt...



Gud i himlen hvað það hefur verið mikið að gera. Ekki bara hafa allir kennarar í fjarnáminu dottið í gírinn og sent inn endalaus verkefni með engum fresti til að framkvæma þau þá hef ég eins og alþjóð veit byrjað að vinna og svo komu líka hávaðaseggirnir heim í dag. Ég hef frá mörgu að segja.Við Sindri fórum í Dyrehaven. Það er riiihiiisastór skógur hjá Bakken (Tívolíinu). Við hjóluðum fyrst um 8km heim til Hlífar og þaðan um 11km til Dyrehaven. Dyrehaven heitir þetta því í honum eru alveg hjarðirnar af dádýrum.





Hlíf og Sindri. Við stoppuðum við stórt hús í miðjum skóginum. Þar var hellingur af fólki enda síðastu dagar haustfrísins. Fólkið var flest allt að fljúga flugdrekum, það var skemmtileg sjón. Númm, við átum graskerssúpu sem Claus maðurinn hennar Hlífar eldaði heima hjá þeim og hitaði svo upp í skóginum. Ógisslega góð og ógisslega gaman.






Claus og Sindri að leika sér :) Það var merkilegt, því Sindri er frekar mikil mannafæla að hann fleygði sér bara í fangið á Hlíf og fannst ekkert að því að leika sér við Claus, ótrúlegt, það skiptir greinilega máli hver er...





Falleg leið. Þarna hjóla þau á undan mér, Hlíf, vinkona hennar og Claus.



Svo vorum við náttúrulega ein heima við Sindri...var ég búin að nefna það? Þessi mynd ber það með sér, hann á koppinum í sturtunni með nærbol á hausnum...


Nú eru allir í Danmörku í óða önn að skera út grasker fyrir Halloween, eða bara sér til gamans og skemmtunar. Hallóvín er 31.október. Það eru útskorin grasker allstaðar. Svo fyrst ég bý hér get ég ekki sleppt því að skera líka. Er það ekki fallegt?

Annars er allt í blíðunni bara. Ég er núna búin að vinna í fjóra daga og líst bara vel á. Er að hjálpa þeim við að útbúa nýju búðina þeirra sem ég verð síðan að vinna í. Ég komst að því mér til mikillar ánægju að búðin er bara í næsta nágrenni, bara 1 mínútu frá leikskólanum þeirra Sunnu og Sindra. Ég kem með betri lýsingu á því öllu síðar... eins og ég sagði áðan þá er mikið að gera og svo er Yfirpabbi kominn.

Heilsur á meðan

22 Oct 2007

Atvinna

Ég verð að telja sjálfa mig til þeirra sem vita meira en aðrir, lengra en nef þeirra nær.

Það var ekki í fyrsta skipti að það gerðist núna, en ég var búin að segja að ég ætlaði að vinna í Amagerblomster og ég fór þangað og lét þau hafa ferilskrána mína (glæstur ferill og myndin hafa heillað þau uppúr skónum..) fór í viðtal daginn eftir og fékk vinnuna bara þá..byrja á fimmtudaginn.

Vonandi var ég búin að segja einhverjum að ég ætlaði að fá vinnu þar, annars er þetta svo ótrúlegt. Það er samt satt að þetta gerist oft alveg eins og þegar ég er alltí einu búin að hugsa mikið um Yfirpabba þá hringir hann.

Mig vantar stafræna videokameru til láns í svona mánuð. Ætli ég nái að töfra það fram með hugarorkunni...

www.amagerblomster.dk nýja vinnan mín...vúúúhúúú

19 Oct 2007

A eða B


A manneskja mun vera sá sem fer snemma að sofa og snemma á fætur, eg held að Yfirpabbi sé A maður
B manneskja er sú sem fer seint að sofa og seint á fætur, ég held að Aðalamma sé B manneskja.


Þar sem ég er hnoðuð saman af þeim þá verð ég að tilkynna að ég hef fundið upp nýja týpu, annað hvort er smart að kalla hana AB eða BA. Ég telst til BA manneskju, seint að sofa og snemma á fætur. Allavegana neyðist ég til að fara snemma á fætur. Ég skal ekki segja með Búbba og Eðalömmu hvort þau eru A eða B eða AB eða BA, en Bóndinn er allavegana AB maður (eða AA maður en í allt öðru samhengi), semma að sofna (ekki sofa því hann dettur bara út...) og seint að vakna.


Hér er búið að vera ósköp rólegt. Fer kólnandi en í dag er glampandi sól og heiðskýrt, afhverju ég er inni í tölvunni er spurning. Ég held að það sé því ég er að DREPAST úr leiðindum. Já...ég hef orðið ekkert að gera, enda ekki í neinu nema fullu námi og tónlistaskóla..annað eins hefur bara ekki gerst. Ég er alltaf í fullri vinnu með fullum skóla og fullu tónlistanámi og fullum krökkum af frekju og fullu heimili af þeim. Þannig að í gær fór ég á stúfana ( ætli sé hér verið að tala um stúfa eins og þúfur eða svoleiðis eða alvörunni stúfa..litlar manneskjur..jæjaaaa) og heimsótti tvær blómabúðir. Ég hafði verið allt kvöldið áður að semja ferilskrá og velja sæmilega mynd af mér til að setja með. Gaman verður að sjá hvort það verður eitthvað úr því.


Sindri er í leikskólanum og fílar það batnandi eftir því sem tíminn líður. Ég var búin að segja hér að það gengi glimrandi vel en svo kom e-h bakslag en það er allt að gerast núna. Hann er nú voðalega yndislegur litli Svali.


Svali

Sunneva á leiðinni til Íslands

Gummi líka á leiðinni þangað

Hvammstangi. Fjaran, gott ef ekki sést í Framnes og náttúrlega fleira. Ég fékk heimþrá við að sjá þessar myndir, ekki endilega til Hvammstanga heldur í stemmninguna sem er í náttúrunni á Íslandi, ískalt og hryssingslegt en samt heima.

Höfnin á Hvammstanga, myndasmiður er Bóndinn náttúrulega þar sem ég fór ekkert þangað heldur hann :) Flott mynd finnst mér.

Var búið að segja ykkur söguna af þessu? Bóndinn er sko fasteignar eigandi. Hann og hr.AHG eiga fasteignafélag= þeir eiga fasteign og eru félagar. Án gríns þá keyptu þeir þetta gamla hús fyrir örugglega 2 eða 3 árum, við bjuggum allavegana á Hvammstangabraut 7 þegar þetta var keypt. Þetta er engin smá fasteign, þetta er bara the tip of the iceberg!! sem sést á myndinni, bara inngangurinn, húsið sjálft er fyrir neðan, 13 herbergja glæsivilla með 7 baðherbergjum. Ekki bara eru 13 svefnherbergi heldur líka 2 stofur á hverri hæð og hæðirnar eru 4. Á hverri hæð er eldhús og ekki af verri endanum. Það er fundarsalur á fyrstu hæðinni innaf bókasafninu sem inniheldur allar bækur Halldórs Laxness og lista yfir það hversu oft þær hafa verið lesnar. Í fundarsalnum er stórt hringborð og við það sitja þeir í Fasteignafélaginu, klóra sér í skegginu og drekka latte eða dæet kók og halda leynifundi um það hvenær eigi að halda áfram að grafa undirgöngin sem liggja eiga neðan úr húsinu, undir Hvammstanga með litlum uppgöngum hér og þar svo hægt sé að ná í nauðsynjar, uppgöng í KVH, uppgöng á Núpi svo hægt sé að bjóða Jóa með, uppgöng á Auðunarstöðum svo hægt sé að hvíla sig á ferðalaginu, uppgöng í Borgarnesi svo Jói geti farið í vinnuna og uppgöng í Reykjavík þar sem göngin enda. Göngin hafa fengið nafnið Sundagöng enda eru þau full af vatni og þeir verða að synda það sem þeir ætla, já eða fara á kanóunum.

Það er svo komið pínu haust í Köben. Er ekki merkilegt að búa í stórborg og við húsfótinn er skógur sem ég er oft búin að tala um, en inni í honum heyrast ekki stórborgarhljóð. Ég verð að segja samt að haust í Reykjavík er mikið fallegra, ef ég væri frá Úganda væri haustið örugglega fallegast þar..

12 Oct 2007

Tónleikarnir áðan

Það mætti halda að ég væri með munnræpu...eða gæti ég frekar sagt að ég sé með hugarræpu, þar sem ég er ekki beint að tala, þannig.

Við gamlingjarnir spiluðum s.s í kirkju áðan. Fyrst í kirkjuskipinu sjálfu og svo í einu af herbergjunum uppi. Afhverju ég tók myndavélina með er jafn óskiljanlegt og sú staðreynd að mér finnst nýyrðið mitt "hugarræpa" rosalega fyndið.
Kirkjan heitir Diakonissestiftelset, eða kirkjan heitir það ekki ég man ekki hvað hún heitir, heldur heitir nunnureglan þetta. Og þarna inni voru nunnur!!
Það var í meiralagi skringilegt þegar við spiluðum í skipinu. Ég heyrði ekkert í meðspilurum mínum. Maður hefur einhvernveginn alltaf tengt kirkju við góðan hljóðburð. Allavega þær á Vatnsnesinu sem ég og Dísa röraleikendur erum búnar að prufa allar. Þannig að það mætti segja að það hefði getað heppnast betur. En seinna spiluðum við s.s á efri hæðinni. Það hljómaði mjög vel og tókst mikið betur.
Ég samkjaftaði á dönsku...viti menn :)
Svo verð ég að tala um nunnurnar sem þarna voru. Þær voru ekki í "hefðbundnum" nunnuklæðum. Þær voru með prestahvítt, þá þetta sem er í hálsinum á prestum og í grænni skirtu, svörtu pilsi og svörtum jakka. Þær voru ekki með neitt höfuðfat. Það var ró yfir þeim öllum....neeema einni. Hún var líka í hvítum sokkabuxum og svörtum flatbotnaskóm, svona stelpulegum sem eru með bandi yfir, ég á svoleiðis :) Já s.s heilhvítar sokkabuxur frekar þykkar og svartir stelpuskór, svart pils og viðeigandi átfitt að ofan. En svo sá ég framan í hana og hún var máluð.. hún var mjööög máluð. Hún var eiginlega eins og skrattinn í sauðalæknum (eða hvernig sem það er sagt). Með nýtísku klippingu og allt. Furðulegt mætti segja kannski.
Þessi kirkja, eða klaustur má frekar segja var sjúkrahús þar til fyrir 25 árum síðan en er núna svona heilsubæli fyrir þá sem eru ekki nógu veikir til að vera á sjúkrahúsi og ekki nógu frískir til að vera heima hjá sér. Það var svívirðilega mikil sjúkrafýla þarna inni...vúff. Ekki alveg minn bolli af te. En viðamikil bygging má segja. Ég hefði viljað fá að sjá þar sem nunnurnar búa. Hvernig ætli það sé að vera nunna. Einhvervegin held ég að það sé ekkert leiðinlegt.
Það MÆTTI SEGJA að ég noti þennan frasa oft...þá "það mætti segja"..

11 Oct 2007

Senn líður að brottför.

Á morgun spila ég með vinum mínum gamlingjunum í Consortgruppen í kirkju einhverri einhversstaðar og svo á öðrum stað sem ég man ekki hvar er. Á laugardaginn flýgur meirihluti Félagsbúsins til Íslands farsælda fróns. Það verða þá bara Bústýran og Örverpið eftir. Við Örverpi ætlum nú að hafa það ágætt á meðan, ég held að ég bjóði mér í heimsókn til Hlíf frænku og Claus. Þar sem ég er að verða uppiskroppa með mat þá ætla ég að mæta þar klukkan svona hálf sex, svo við fáum örugglega eitthvað að borða. Hinir, þá Bóndinn, Frumburðurinn og Hittfíflið (eða Heimasætan það má ráða) fljúga til Íslands um hádegið á laugardag, við mikinn fögnuð og alls engan flugkvíða Bóndans.

Á ég kannski að útskýra nafnið á Hinu fíflinu? Það er þannig að Bóndinn hefur allt frá fæðingu barnanna haldið því að þeim að hann sé Foringinn (ekki veit ég afhverju því það er varla augljósara að ég er foringinn). Og svo þegar þau komust til ára (ég nefni ekki "til vits og ára" strax) þá fóru þau að góla með honum. Hann fór " hver er foringinn?" og þau gerðu "pabbbbbi" og svo sagðist Gummi vera Prinsinn eða Kóngurinn. Þá heyrðis í Sunnevu (eða Sunnefju eins og hún amma Ásta kallaði hana einhverntíma :) " og ég er Hitt Fíflið". Þetta átti að sjálfsögðu að vera Hirðfíflið en við erum ekkert að breyta því núna.

Þau fara s.s héðan um eitt og eru lent um hálf þrjú heima á Íslandi. Þau ætla að vera fyrir sunnan hjá Aðalömmu og fyrir norðan hjá Eðalömmu. Aðalamma sækir þau í Keflavík og ég held að Bóndinn ætli að bruna strax til Föðurhúsa í Hveragerði og þaðan á Kaffi Síróp að fá sér tvöfaldan latte væntanlega í glasi en ekki bolla.

Ég hlakka til að þau séu ekki heima í tvær vikur. Ekki svo að skilja að ég vilji ekki hafa þau hjá mér, síður en svo. Ef einhver er hneykslaður á því þá verður sá hinn sami bara að eiga það við sjálfan sig. Það verður gott fyrir Félagsbúið að fá smá frið fyrir hvort öðru, þó að ég og Örverpið fáum ekki pásu á hvort öðru. Enda er það nú bara búið að vera svoleiðis að ég hef þurft að rífa hann lausan af rassgatinu á mér á kvöldin, svo samgróin erum við orðin eftir þennan tíma.

Annars fór ég á æfingu áðan með Blæseressembled. Það er blásarasveit Musikhøjskolen..s . Það eru 4 þverflautur, eitt óbó, tvö fagott, 3 klarinett og eitt bassaklarínett. Bassaklarínettið nær frá munninum á mjög stórri konu og alveg niðrá gólf. Svolítið eins og ofvaxinn saxafónn. Á klarínettin spila tvær unglingsstelpur. Þær sitja hoknar í baki og flissa. Á bassaklarínettið spilar eins og ég sagði áðan stór kona með grænblá gleraugu. Á fagottin spila maður og svo stelpa sem er örugglega á mínum aldri eitthvað. Þau eru líka bæði rosa stór, enda fagott stórt hljóðfæri. Þá kemur maður á óbóið. Hann er með skrítin augu og kom með köflótt teppi til að setja undir rassinn á sér. Þá kemur ólétt kona á þverflautu og mamma hennar er íslensk en hún talar ekki íslensku, þá konan. Þá kemur önnur unglingsstelpa sem spilar líka á þverflautu, hún er örugglega ágæt... þá kom ég og svo kom Pernille, líka á þverflautu. Pernille og sú ólétta voru að kaupa sér nýjar flautur, ég öfundaði. Samt veit ég ekki hvort ég gæti fengið mér nýja, mér þykir svo vænt um mína flautu og er náttúrulega orðin vön henni. Kennarinn er rauðhærð kona sem er afar lík Hjördísi sem var deildarstjóri í Blómavali um árið. Þetta var ógisslega gaman. Ég ætla pottþétt að halda áfram í þessu.
Hej

10 Oct 2007

Yfirpabbi á afmæli

Yfirpabbi á afmæli í dag. Hann hlítur að kallast Yfirpabbi þar sem hann er bæði Pabbi og svo tengdapabbi svo er hann líka stór. Pabbi og Bryndís eru þar af leiðandi bæði vog. Ég held samt að það séu ekki sömu vogareinkenni sem einkenna þau bæði, þó það sé mjög stutt á milli...já eða þá sem einkenna Sunnevu, hún er líka vog. Ég held svei mér þá að hér gæti ekki verið meira ólíkt fólk á ferð.
Hér er held ég fermingarmynd frekar en af einhverju öðru tilefni, af Pabba.
Og hér eru systkinin, Pabbi til hægri og svo Ólöf þarna aðeins á bakvið, þá Rannveig og Ágúst. Tóti frændi er svo þarna á bakvið að grettasig að mér sýnist :)
Ásta frænka kom í heimsókn til mín í gær og kjöftuðum við mikið. Ég sýndi henni þessa mynd og okkur vantar núna að vita hvaða ár þetta var tekið...ég hélt því fram að við hefðum ekki verið fæddar en Ásta hélt að hún hefði trúlega verið fædd..af hárgreiðslunni á mömmu hennar að dæma, sá sem veit endilega segja.
Fögur systkini verður maður að segja og verð ég enn heimþrárri við það að skoða þessar myndir.
Ef einhverjir úr annari hvorri ættinni eiga myndir frá í gamladaga og hafa ekkert að gera frekar en fyrri daginn þá væru myndir vel þegnar. Tölvupósturinn er enn sá sami nitta@paradis.dk
Heyrumst rúsínurnar mínar.

9 Oct 2007

Flauta

Ég fór á æfingu í gær eins og venjulega á mánudögum með Consortgruppen. Ég hjóla alltaf þangað. Ég þarf að fara yfir títt nefnda Skjaldbökugötu. Merkilegt með mánudaga og Skaldbökugötuna. Fyrst fór ég þangað til að láta stimpla í eymingjakortið og núna á leiðinni í spilatíma. Gatan er iðulega full af þeim sem hopp' upp í bíla með hveeerjum sem EEeer. Það eru yfirleitt ungar stelpur, alveg niður í 16 ára. Það heyrði ég nefnilega í fréttum að þær hefðu allar verið handteknar og flestar hafi verið á þessum aldri. Það stoppaði þær nú samt ekki, nema þær sem vinna á lélegri og fáfarnari götum hafi hlaupið til og stokkið í þeirra stað. Það voru allavega aftur fullt af píum þarna. Ég hef nefnilega verið að velta því fyrir mér hvað þær geta verið lengi útivinnandi eftir því sem líður á veturinn og í hverju þær munu vera þegar fer að kólna verulega. Það má segja að þó það hafi verið 15-20 stiga hiti hér um helgina að þá var ekki svo heitt í dag. Það fer kólnandi. Ætli þær fari í kraftgalla, samt nógu seggsí fyrir karlpeninginn eða hvað það er sem hirðir þær upp? Eða kannski eru þær enn á nælon sokkum í pínupilsi, eða kannski fara þær í dúnúlpu, kannski drekka þær sér til hita.. maður veit ekki. Ég ætla að fylgjast með þessu. Mest ér ég þó hrædd um að vera kannski hirt af lögreglunni í misgripum fyrir einhverja gelluna. Ekki það að ég sé eitthvað hoppuppíbílaleg. En maður veit aldrei. Svo ég hjóla alltaf í 3 gír þarna í gegn, bæði niður brekkuna og upp. Númm þegar ég er þotin yfir Skjaldbökugötu hjóla ég í gegnum einstefnugötu sem heitir égmanekkihvað og þá er ég komin að torgi. Torgið er við Vesterbrogade. Þar "eiga heima" grænlendingar. Þeir sitja að sumbli á hlöðnum vegg sem þarna er og nokkrum bekkjum, undir tré. Pínu fyndið að sjá þarna hóp af blindfullum hálftannlausum grænlendingum og svo við hliðina á þeim virðuleg kaffihús með kósý stemmningu og normal fólki að súpa bjór í blíðunni. Þá fer ég upp Bakarastræti og yfir Gamle Kongevej og hjóla hann svo á enda þar til ég kem að Smallegade (eða Litlugötu). Á þessari leið er ég oft í kappi við náungann. Ég meina, ég er enginn aukvisi, ég get hjólað hraðar en margir. Þegar ég er hálfnuð upp Gamla Kóngaveg þá get ég alltaf kíkt á klukkuna því hún blasir við mér alla leið að tónskólanum af kirkju sem stendur fyrir endann á Gamla Kóngavegi. Þá fer ég í tíma og svo til baka aftur. Það sem gerðist hinsvegar bæði í gærkvöldi og mánudagskvöldið þar áður var að ég hjólaði á eftir sömukonunni eiginlega allan Gamla Kóngaveg. Ég veit það því hún var með bjútíbox á bögglaberanum og númer límd á afturbrettið. Hvað ætli hafi verið í bjútíboxinu... one might wonder.. þegar ég uppgötvaði það fannst mér það fyndið en þegar ég sá síðan á nákvæmlega sama stað fatlaða manninn sem labbar eins og eitthvað skringilegt segjum við bara, þá eiginlega var mér ekki sama. Þessi hjólaferð heim var nákvæmlega eins og sú í vikunni áður..talandi um dei sja vú.
Í tíma í dag var mér hinsvegar boðið að spila í enn annarri blásturshljómsveit, en ég held að sú hljómsveit sé ekki bara með flautum heldu með öllum tréblásturshljóðfærum. Það verður gaman ef úr verður.
Sennilega er dönskuskólagöngu minni lokið. Það er víst ekki þannig að maður njóti fjárhagslegs stuðnings á meðan maður lærir dönsku hér í borg. Þannig að vinnumarkaðurinn bíður mín, hann ætti að vera feginn því ég er dásemdar starfskraftur. Ekki bara er ég dásemdar starfskraftur heldur líka gólden bjútífúl og gáfuð í meira lagi.
Við eða það má eiginlega frekar segi að Bóndinn hafi verið með Sindra í aðlögun á leikskólanum. Honum gengur svo vel, við erum svo fegin að það er ekkert vesen fyrir hann að vera þarna. Mað ur hefði getað haldið það. Hann var líklega farinn að klepra úr leiðindum á því að vera með þjónustukonunni sinni allan daginn...í vinnuna að skúra, út í búð, hanga í tölvunni.. borða meðenni og láta hana skipta á sér.
Hann hefur strax eignast vinkonu sem er lítil kolsvört stelpa með krullur og önnur hefur gert sér dælt við hann og kemur frá Tælandi. Jibbíkóla fyrir því.

7 Oct 2007

Afmæli á afmæli ofan

Bryndís systir mín á afmæli í dag. Í því tilefni (það er eins og ég hafi ekkert að gera annað en að blogga, það er ekki satt, ég sit við þetta sveitt á milli annarra mikilvægra verkefna bara fyrir lesendur mína..brabra)
Hér er Bryndís þegar það var ennþá teppi á Melhaganum..já og gott ef ekki glittir í veggfóður þar líka (vona að þetta sé Melhaginn..annars þarf ég trúlega að láta kanna hvort minningaveitan sé ennþá að virka) Þannig að fyrst það er teppi og veggfóður þá hlítur Bryndís að vera kannski um 2 ára.
Foreldrar okkar eru ekki þekkt fyrir að hafa skítugt í kringum sig, þessvegna var hún böðuð og líka börn sem komu í heimsókn. Glöggir, já aðeins glöggir munu sjá að þetta er Otri frændi vor. Ég man vel eftir þessu baðkari, það var flenni stórt, allavega meðan maður var lítill..
Svo kom öskudagur. Bryndís er trúðurinn og Eydís er hjúkka eða læknir í pilsi...þið takið eftir að það er komið parket á Melhagann og ekkert veggfóður.
Merkilega nokk kom annar öskudagur. Enn merkilegra er að það er til alveg eins mynd af mér í þessum sama búning eða mjög svipuðum í sömu stellingu...
Ég veit ekki af hvaða tilefni þessi var tekin eða hvar, í einhverjum garði eða skógi sýnist mér. En sæt mynd samt.
Hún dansaði ballett. Hún er sú sem ber sig best af þeim sem eru á myndinni, fremst í hvítum bol.
Þá var fermt....

....og útskrifast.

Til hamingju með konuna þína Hinrik, mömmu þína Ásdís og dóttur ykkar mamma og pabbi.

Vúff...væmnari verður maður nú varla.
(þeir sem vilja fá senda grettumyndasyrpu af okkur systrum látið í ykkur heyra)

Afmælisveislan sem blásið var till

Það var mikið fjör hér í gær. Mér tókst (þó ég segi sjálf frá) að gera ágætisveitingar fyrir börn. Ég er ekki að segja að það hafi ekki kostað átök...hér fyrir neðan er mynd af afmælisbarninu og gestum þess, það komu allir íslensku krakkarnir í blokkunum og svo ein íslensk frá leiskólanum.
Þorvaldur var veislustjóri.
Það var með þessum átökum að ég bakaði. Að óskum afmælisbarnsins var gerð rjómaterta. Að óskum Bóndans var gerður einn marengsbotn. Það endaði þannig að báðir svamparnir voru eins og blað að þykkt og marengsinn of stór, ég setti það bara allt saman í eina köku..
Sama dag og Sunneva átti afmæli fór Gvendi í Halloween partí á frítíðsheimilinu sínu, sem heitir Skipið. Hann fór sem Darkúla og náði að græta smástelpu í stigaganginum með ógurlegu útliti sínu. Mér fannst hann hinsvegar allsekki nógu agalegur og vildi festa dóta pöddur í hárið á honum en hann var ekki sammála, mér fannst hann of ljóshærður og bláeygur til að vera skelfileg blóðsuga.

Það er ekki lítið sem ég hef bakað uppúr þessari bók í gegnum tíðina, reyndar síðast fyrir um hvað...15 árum en fyrst bókin er til, því ekki að nota hana. Voðalega þægileg bók enda gerð fyrir börn. Engar uppskriftir með grömmum í stað desilíters mælieininga.


Þegar Sunneva kom heim af leikskólanum á föstudaginn biðu hennar glás af gjöfum. Hún fékk þessa "bók" frá Gumma, en í henni eru perlur og dótarí til að búa til hálsfestar og fínerí.

Þá skulum við vinda okkur að eldhústöfrum Bústýru. Svona leit eldhúsið s.s út á föstudaginn (já allan föstudaginn) og fyrir hádegi á laugardaginn.

Það var að vísu allt orðið hreint og gljáandi þegar krakkarnir mættu á svæðið klukkan 13. Þau komu öll klukkan 13, frekar fyndið, það hrúgaðist inn 15 krakkar á 5 mínútum. Þau þutu öll beint inní herberi krakkanna og allir prufuðu allt dótið þeirra á skuggalega skömmum tíma og þessvegna var herbergið mjööög fljótlega eins og eftir loftárás. En bara gaman samt. Sunneva fékk afskaplega flottar gjafir bæði frá fjölskyldu og vinum. Hún ætti ekki að vera í vandræðum með að hafa ofan af fyrir sér á næstunni. Nú er inn að vera pía hjá henni og heyrast miklar Bratz og Barbie samræður innan úr herbergi. Tveir feður krakkanna komu að sækja þau saman og settust niður og fengu sér köku. Við vorum sammála um að Brian húsvörður hér í Hekluhúsunum sé með eindæmum óágætur húsvörður. Þegar allir voru farnir kom Hlíf frænka og Claus. Krakkarnir voru ekki lítið montin með að eiga bæði frænku og frænda hér..sem sagt Hlíf frænka og Claus frændi. Gaman að fá þau í heimsókn loksins:) Svo í kvöldmat komu Helga, Addi og börn og Siggi. Við borðuðum lax ala Bóndinn. Það klikkar aldrei þegar hann eldar. Allir voru farnir um kl 21 og krakkar komnir uppí rúm. Við vorum andlega ekki við um það leiti en héngum samt og horfðum á égveitekkihvað til um hálf tólf...þá urðum við líkamlega ekki við...

5 Oct 2007

Sunneva Eldey

Hún er 5 ára í dag.
Allir vöknuðu egggstra snemma til að fagna afmælisdegi Sunnevu. Hún fékk að opna tvo pakka en svo þurfti að drífa sig í skólana.
Þá þótti mér við hæfi að setja inn nokkrar myndir af henni, henni til heiðurs :)
Hér er hún að sýna listir sínar sl. vor á Drekavöllunum í Hafnó.
Hér er hún 3 ára að ég held um vor þá 2005...með snuð.
Þessi mynd er tekin um jólin 2004. Líka með snuð en voða sæt.

Ætli Gummi sé ekki jafngamall Sindra núna svona 20 mánaða (+- einn eða tveir) og hún uþb kannski 3 mánaða..eða 4. Þannig sváfu þau í tvíburakerrunni, alltaf saman. Einn stór og ein lítil.

Þá er hér ein vina mynd frá Hvammstanga. Þarna eru Gummi, Draupnir og Sunneva. Sunneva er 3ára og Gummi 4 ára og Draupnir 5 ára. Þess má geta að hún er í úlpu sem Sindri notar núna..hann er mikið stærri en þau á þessum aldri..
Á morgun verður haldið smá kökuboð. Allir að senda mér góða kökustrauma, ég er ekki viss um að pull that one through án hjálpar ónefndra fjölskyldumeðlima ..ojojoj
En við segjum bara "elsku Sunneva, TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ"







4 Oct 2007

Síðan á föstudaginn.


Það hefur ýmislegt gerst síðan á föstudaginn, þegar allt var í lukku og ólukku. Helgin leið og ég held að ég hafi sett met í verkefnaafköstum á sunnudaginn og sett í leiðinni heimilismet í setu við tölvuna, ég var fyrir framan hana ALLAN daginn, til að klára það sem ég þurfti að gera. Á mánudaginn fór í dönskuskólann og eftir tímann var nemenda fundur þar sem kynnt var undir liðinu til að fara og mótmæla þessum ósköpum. Og það var gert í gær. Þvílík stemmning. Eins og sjá má á myndinni þá er þetta tungumálaskóli fyrir útlendinga, það eru allra þjóða kvikindi þarna. Það er í raun mjög skemmtilegt. Allir tala saman á útlEnskDönsFrönskHebrúversku. Einhver samkennd í gangi þarna. Það voru málaðir borðar og plaggöt með ábendingum um afhverju við værum að ganga. Það átti að koma með hávaðameiker. Ég setti 25aura í hálfslíters flösku og hristi, það er ekki hægt að segja annað en að ég hafi fjárfest í þessu. Það furðulega er og skemmtilegt að þegar Þorvaldur var að setja 25aurana í flöskuna fyrir mig dúkkaði upp íslenskur 25aur!! Hann var sleginn 1940, en furðulegt. Það var s.s skundað af stað með þvílíkum látum. Um 200 manns. Forsvarsmenn okkar görguðu "what do we want?" og við (hinn tryllti og heilaþvegni lýður) æptum á móti "danish", þau fóru "when do we want it" og við "NOOOOWW" Þetta var gaman :)



Allir gera sig tilbúna í höfuðstöðvum K.I.S.S á Nørrebrogade.




Hér er hersingin komin á Ráðhústorgið, þar sem forsvarsmennirnir, Nicky sem er í brúna pilsinu og Oliver sem stendur við hliðina á henni og þeirra þjónar sem halda á lúðrinum, héldu ræðu um afhverju það væru 200 útlendingar að mótmæla á Ráðhústorginu. Kaldhæðnin er þessi að það eru aðalfréttirnar í Köben núna að vantar fólk til atvinnu, sérlega menntað fólk. Tungumálaskólinn KISS hefur orð á sér fyrir að vera besti skólinn í Köben og jafnframt útskrifa fljótast dönskumælandi útlendinga. Þá finnst manni hálf skrítið að það sé verið að loka skóla sem gerir útlendu atvinnuafli mögulegt að komast á atvinnumarkaðinn. Þið getið lesið um þetta allt hér http://www.kisscontinue.dk/ og á http://www.wewantakiss.wetpaint.com/ . Allavega þá kom uppúr krafsinu að við fengum fund með borgarstjóranum í dag, þar sem forsvarsmennirnir fara og reyna að fá KISS opnað aftur eða önnur ásættanleg úrræði.
Að allt öðru:


Ég var búin að nefna að Sindri hefði tekið uppá því að taka eldhússtólana með sér um íbúðina til að komast þangað sem hann langar. Ég segi nú bara húrra fyrir því að hann bjargi sér bara. Segi kannski minna húrr yfir því að hann sé alltaf að þessu. Í þetta skiptið klifraði hann uppí til Sunnevu þegar hún var ekki heima en náði ekki lengra en þetta.


Og hér er eitthvað ótrúlega spennandi. Hann hlýtur síðan að fá sigg á hausinn þar sem hann dettur töluvert oft af stólnum og niður...maður gæti kannski furðað sig á því afhverju hann þýtur uppá stólinn strax aftur, með tárin í augunum ennþá..vonandi er hann ekki með gullfiskaminni.


Meira af súkkulaði barninu. Bústýran bakaði jólaköku. Það var þá jólakaka og ís í eftir mat. Hvað er eðlilegra en að aðalmanneskjan sitji útötuð í súkkulaði og alsber uppá eldhúsborði að skenkja sér sjálf köku, við hin, undirlægjur hans, sátum á okkar stólum og leyfðum skrípinu að hafa sinn gang.
Það gerist svo stundum að það er hamagangur og læti í herbergi systkinanna. Þau fara að grenja og garga svona 1000 sinnum á dag. Það er ákveðinn partur af okkar heyrn sem ekki virkar lengur, það er parturinn sem heyrir svoleiðis garg. Það er ekki nema þegar við erum þreytt eða pirruð að við tökum einusinni eftir því að þau eru að góla eitthvað. En svo kemur að því að grenjið er fyrir alvöru og þá kviknar á einhverju inní manni og maður stekkur upp. Það var þannig um daginn, hvort það var ekki bara á sunnudagskvöldið. Þau voru búin að vera með geggjuð læti, ótrúlega æst eftir daginn. Og búin að góla og grenja mikið, klaga og fleira skemmtilegt. Þar til við heyrum dynk mikinn og svo Gvenda garga. Þegar við komum í herbergið lá hann á gólfinu með sár á bakinu og blóð í munninum...ég fékk nokkur auka hjartslög. Við skoðun kom í ljós að hann hafði dottið úr rúminu í gluggakistuna og þaðan á gólfið..eða eitthvað svoleiðis. Hann fékk sár í munninn og rispu á bakið. Það skemmtilega var að þegar ég var að skoða uppí hann tók ég eftir því að lausa tönnin var horfin. Sunneva þaut í herbergið og fann tönnina. Þannig að sársaukinn hvarf eins og dögg fyrir sólu og hann fór beint uppí að sofa til að setja tönnina undir og fá pening fyrir. Eins gott að tannálfurinn gleymdi því ekki...