24 Sept 2007

Fyrir sögu þyrsta aðdáendur mína

Í dag fór ég í fyrsta skipti í KISS dönsku skólann. KISS, stendur fyrir Københavns Intensiv SprogSkole. Þar voru um 15 manns held ég. Kennarinn sem er kona, ekki einsömul sem lítur út eins og Evan McGregor. Hún var vandræðaleg en samt held ég að hún sé mjög góður kennari. Þarna var ég frá Íslandi, tvær píur frá Ísrael. Önnur þeirra var líka ólétt og hafði allt á hornum sér, svona bylur hæst í tómri tunnu manneskja, hin var í svo stuttu pilsi og með svo flegið niður að það lá við að henni hefði nægt að vera í belti. Númm, þarna var ein frönsk/kanadísk sem las dönskuna með frönskum framburði. Þá kom sú frá Ameríku, bjó í New York (allir spurðu "afhverju fluttirðu hingað frá NEW YORK???) hún er að læra dönsku fyrir kærastann sinn...þó ég sé mjög hrifin af Bóndanum, enda er hann gull af manni, þá myndi ég ekki nenna að læra eitthvað fyrir hann, það yrði ég að gera fyrir sjálfa mig. Hún um það, en þau ætla s.s að flytja eftir e-h tíma til New York og hann sagðist þurfa að hafa einhvern til að tala við á dönsku...ojæja. Þá kom slæða. Hún var held ég örugglega frá Afganistan. Ekkert að því heldur ímynda ég mér alltaf að slæður séu svona hógværar og hömbúl...þessi var með slæðu frá Kalvin klæn, það þótti mér stinga í stúf. Þá kom tæja. Þið vitið öll hvernig hún lítur út. Máluð í rauðu og bláu, þá um varir og augu. Allt "skóladótið" hennar var Hello Kitty og hún var þarna í annað sinn og segir enn heller í staðinn fyrir heððer (hedder). Svo var hommi. Það er ég alveg viss um því hann sagði his partner væri héðan. Segir maður ekki konan mín er héðan ef maður á konu? Ekkert að því heldur, þá að vera hommi, hann passar þá vel inn því allir hinir þátttakendur eru konur. Númm, þá var ein frá Kína, ég sá eiginlega ekkert framan í hana svo ég get ekkert sagt. Öðru máli gegnir um þessa frá Þýskalandi. Hvað er það nú...vóóó...hún var sérlega ósmekklega til fara, alveg sérdeilis. Köflóttar buxur og bleikur síðerma með rauðum stutterma yfir...það toppað með dýryndis hárgreiðslu..eða ekki. Það er náttúrulega ekkert að þessu fólki, en þetta var það sem mitt gagnrýna auga nam við fyrstu kynni. Ég er hinsvegar lang fallegust og það er í meira lagi merkilegt landið sem ég kem frá, úúúú segir fólkið þegar ég segi að ég komi frá Íslandi. Sú frá Ísrael heldur örugglega jafn mikið að ég hafi búið í torfkofa eða snjóhúsi og hvað mér finnst ótrúlegt að hana langi til að fara heim í stríðshrjáð land.Jámm maður getur verið svo grunnhygginn stundum.

Annars þá höfum við bara verið að gera venjulega hluti. Ég var síðasta daginn minn í vinnunni hjá Vilborgu á sunnudaginn og vinn nú hörðum höndum að endurheimta eigið skinn á hendurnar. Þvílíkir þurrkar sem ég hef mátt líða af völdum þrifa. Þá er búið að ákveða og panta flug heim til Íslands fyrir krakkana eldri, þau fara til ömmanna um miðjan mánuðinn og verða í tvær vikur. Það finnst þeim ekki lítið spennandi og tala um það á hverjum degi. Kannski amma Ragna knúsi okkur svo fast að við segjum ái, amma Lóa veit allt, hún er líka svo gömul, hún er ÞRJÁTÍU ÁRA. Kannski segir amma Lóa að við förum í Auðunarstaðasveit, förum við ekki til ömmu Hlíf?? Endalausar pælingar. Það er líka byrjað að telja niður í afmælið hennar Sunnevu. Ég hef verið að skjóta því að henni hvernig köku hún vilji og hún er enn við sama heygarðshornið, hún vill köku með grænu kremi...

6 comments:

Anonymous said...

Já, þau verða sko knúsuð fast! Ég mæli með grænu kremi, það var nú einu sinni kaka með grænu kremi í afmæli, man ekki hvort það var hjá KG eða BG, en get kannski fundið mynd, svo ég MÆLI MEÐ GRÆNU KREMI, Sunneva mín!
ástarkveðja
mor

Anonymous said...

bahahahhah... þetta er allt saman frekar fyndið. Hlakka ferlega til að sjá krakkana!! Gerðu græna slöngu köku!! Sunneva vílar nú ekki fyrir sér að pota í snák...

Anonymous said...

það er snilld að lesa eftir þig, það er ekki hægt annað að brosa allan hringinn. Farið vel með ykkur
Knús og kossar Ásta frænka

Anonymous said...

Ég held bara að þú hafir vinninginn yfir "skemmitlegasta bloggið".
Ekki amalegur titill það...

Anonymous said...

Hahahaha alveg ertu ótrúlega heppin með skólafélagana...þvílíkir karakterar. En hvurnig er þetta með Sunnevu eru að koma fram einhver framsóknargen í barninu??? Það líst nú Stellu frænku ekki á!
Góðar kveðjur til ykkar.

Bústýran said...

Framsóknargen..hehehe, ég held að það sé erfðafræðilega ómögulegt :)