31 Jan 2008

Ísför

erÉg fór til Íslands. Þar var allt í snjó og vægast sagt tvísýnt veður á tímabili. Það var að vísu dásamlegt að lenda í því. Það er einhvernveginn kunnuglegra að vera í hávaðaroki og snjóbyl heldur en bara hávaðaroki eins og er hér þessa stundina.



Ég flaug á fimmtudaginn síðasta og hafði það svona líka blússandi gott í flugvélinni, var ein með 3 sæti. Svo lenti ég (líka á fimmtudaginn...) í Keflavík og minn einkabílstjóri Jóhannes var þegar mættur og við brunuðum til Hafnafjarðar. Þar fórum við í Kjarnavörur og náðum í bílinn sem er "merktur mér" en hann hafði ég fengið lánaðan. Þá fór ég og rúntaði um Reykjavík og endaði svo hjá mömmu í mat og svo með Bryndísi í sundi. Ég hef nú bara eitt að segja um sund og heita potta: ÉG ELSKA SUND OG HEITA POTTA.



Á föstudaginn fór ég í hárgreiðslu til Marion. Ég veit það ekki... ég ætlaði bara að fríska uppá minn annars faguríslenska músalit með því að biðja hana að setja skol yfir, svo ég fengi smá glans og mjúkt hár. Jú, hún átti eitthvað töframeðal til að uppfylla óskum mínum og ég hallaði mér bara aftur og lét fara vel um mig hjá henni, full af trausti til töframeðalsins og yfirmanns þess. Skemmst er frá því að segja að endarnir á hári mínu eru há appelsínugulir... það er bara töffffff...(úff)

Þá má heita að klukkan hafi verið orðin 12 eða um það bil á hádegi og var þörfin til að komast norður í land orðin yfirsterkari vorkunnsemi yfir hárinu mínu. Það var ekki útlit fyrir að komast en ég ákvað að prufa að keyra fyrst upp að Esso þarna á leiðini út úr Reykjavík. Það gekk nú bara vel og ég ákvað að prufa að keyra þá í Mosó, ég myndi þá bara heimsækja frænkur mínar þar ef ég kæmist ekki lengra. Það var heldur ekkert mál og ég keyrði til Kjalarness, þar var ekki vindurinn sem stóð á skiltinu, allavega ekki svo ég tæki eftir. Og til að gera langa sögu stutta fór ég alla leið í Borgarnes án vandræða, að vísu þurfti ég að keyra á 60 en það var bara betra. Og frá Borgarnesi keyrði ég uppá Bifröst. Það var heldur meiri ófærð á þeirri leið og var ég með hjartað í buxunum. Þegar ég kom þangað hitti ég Aldísi og Sveinbjörgu og fór með þeim yfir heiðina. Við vorum allar (að ég held örugglega, ég svo sem gáði ekkert í þeirra brækur) með hjartað í buxunum. En heim komumst við. Ég er svo fjölheimiluð, ég á "heim" til Hvammstanga, Reykjavíku, Íslands og Danmerkur. Og þetta tók ekki nema frá hádegi og fram að kaffi. Það var eins gott því það var búið að bóka mig í badminton um kvöldið. Ég og þrjár aðrar píkur spiluðum babbín eins og við hefðum aldrei gert annað. Ég er að vísu ennþá að drepast í fótunum og öxlinni en það hlítur að stafa af því hversu oft ég æfi babbín, en ekki að ég hafi ekki spilað síðan áður en ég fitnaði árið 2005 og gaut síðan barni alltí einu árið 2006. Eftir það fórum við Ella í pottinn og það er það var frábært, ég fór líka í ljós þarna, allt til að fá hita í kroppinn. Og svo fórum við heim í sjónvarpsgláp.



Laugardagur. Ég vaknaði eftir ansi góðan nætursvefn heima hjá Mömmu Lóu um kl 9. Þá fórum við Aldís í ljósmyndaleiðangur og svo í flautusamspil í Tónlistaskólanum. Það var frábært. Þá fórum við í leynileiðangur útað Grænahvammi og tókum á því í torfærum. Eftir það borðuðum við og eftir það spiluðum við og eftir það drukkum við og eftir það komu gestir og eftir það borðuðum við nammi og eftir það heimsóttum við Síróp og eftir það Dóra og eftir það fór ég að sofa.



Sunnudagur. Ég gerði ekkert, enda of hress eftir athafnir laugardagsins, ég sá mér bara ekki annað fært en að liggja í sófanum yfir sjónvarpinu allan daginn. Það var líka skítaveður.



Mánudagur. Ég fór suður í Bifröst með bílstjóra mínum og keyrði svo alla leið í Reykjavík og leit við í nokkrum búðum og svo hjá Mömmu Rögnu og fékk bækur þar og svo var mér boðið í mat af Yfirpabba, á Múlakaffi, ég verð að segja að það kom á óvart hvað það er snyrtilegt og góður matur, mig minnti endilega að einusinni hefði verið svo sjöbbí þarna inni.

Nú, þá er helst kannski að nefna flugferðina heim. Ég bað um að fá að vera ein í röð ef flaugin væri ekki full. Það fékk ég ekki náttúrulega og var settur við hliðina á mér maður sem var vond lykt af...ojoj, ekki alveg eins góð flugferð og hin.

Hér með líkur ferðasögunni.

22 Jan 2008

Krumpuð ársbyrjun



Ég veit ekki hvernig ég að að koma orðum að því að ég er hætt í vinnunni og byrja í skóla núna 4.febrúar...

Örlögin greinilega enn á fylleríi, spurning hvort ég ætti ekki að detta bara í það sjálf, athuga hvort það fer ekki að róast um..
Það var þá ofaná, eftir að mér bauðst að byrja í multimediadesign námi í Köbenhavns Tekniske Skole, eða Köbenhavns Erhvervsakademi. Mér finnst akademi aðeins flottara svo ég held að ég kjósi að segjast vera í Köbenhavns Erhvervsakademi, heldur en Tekniske skole.... að ég ákvað að fara í það. Það er tveggja ára diploma nám og svo bætir maður við kannski einu til einu og hálfu ári og útskrifast með bachelor. Þá myndi ég örugglega fara í grafíska hönnun svona meira. En skemmtilegt finnst mér. Það er þá beint framhald af því sem ég var að gera fyrir áramót, lítur út fyrir að vera eðlilegt framhald eða svoleiðis... hvað á ég svosem að vita..

Það lítur því út fyrir að ég neyðist til að gera enn eina fólklýsingu. Ég reyni að hafa það stutt svo Sigrún fái ekki lesblindu á meðan, eða siðblindu því ég er að röfla um samstarfs eða samnema mína, hehe. En það er rétt hjá henni, ég hefði kannski minna farið að lýsa samstarfsmönnum mínum í Forsvar, en það er ekki því þetta er lítill staður og ég hefði eitthvað vont um það að segja fólkið í Forsvar. Þvert á móti þá hef ég ekkert nema gott um það fólk að segja og svo er óþarfi að gera persónulýsingu á fólki sem allir þekkja fyrir.

Það var sól í Köben í dag. Það var ekkert hlýtt eða þannig en sólin skein. Það var frábært. Mér finnst alltaf svolítið gaman þegar sólin skín. Og gott ef ekki var vor í lofti, en ég held mig á jörðinni því janúar er jú ekki búinn.
Hér er svo bara allt við sama. Þau fara í skólana, ég er búin að skrifa umsókn fyrir Sunnevu að byrja í skóla næsta ár. Hún fer þá í sama skóla og Gummi.



Til gamans, en bara fyrir þá sem finnst það gaman. Þarna erum við systur að einhverju leiti upprunnar, eða þannig. Afi og amma bjuggu í Otradal í þá daga. Ég get ekki séð út hvað við erum gamlar þarna... 10 og 6 ára... 12 og 8 ára?

Þarna erum við líka að einhverju leiti upprunnar. Þetta er Hróarsholt í Villingaholtshreppi (er það útaf því sem maður er eins og maður er ...að ég er komin úr Villingaholti?) í Árnessýslu. Er það ekki rétt hjá mér? (jú það er það, ég er búin að fá upplýsingar um það frá öruggum heimildarmanni mínum). Það voru langamma mín sem ég er nefnd eftir, afi minn Halldór, amma mín Ásthildur og þeirra börn, þá pabbi, Rannveig, Ólöf og Ágúst. Þessi mynd er tekin á ættarmóti fyrir um 7 árum eða 8. Er ekki tíminn fljótur að líða?




Þarna er ég 2 ára held ég ..alveg eins og Sindri í framan og Þóra Hlíf frænka mín ári yngri og Gylfi frændi okkar, ég veit því miður ekki hvað hann er ungur.. Og ég veit ekki hvað hundurinn heitir en við erum fyrir framan Breiðabólstað þar sem amma mín Hlíf og afi minn Tómas bjuggu og þeirra börn sex, mamma, Brynja, Sigga, Pálína, Smári og Víðir, eftir að þau bjuggu í Otradal, nema þau hafi búið annarsstaðar í milli? Ég man alltaf hvernig er þar inni og líka hvernig er þar úti. Þvílík dásemd. Ég vorkenni þeim sem ekki hafa haft tækifæri á að komast í snertingu við að vera í sveitinni, vöðlast um í náttúrunni þar sem engin eru takmörkin.
Jæja, ég þarf að fara að huga að niðurpökkun fyrir áætlaða ferð með Boing sjöfjórirsjö.

15 Jan 2008

Hvað má bjóða YÐUR

Mín eigins örlög hafa örugglega verið á filleríi þegar þau sendu mig í Amagerblomster. Nú er ég á réttum stað og það vitum við því herra Bjarne i Bering hás of flávers er den "kongelige hofleverandør" sem þýðir að hann þjónar kóngi og drottningu og því sem býr í höllinni. Þannig að tæknilega séð þá vinn ég fyrir drottninguna. Hann var einmitt áðan að fara yfir það með mér að ég verð þegar ég tek símann og drottningin eða einhver úr höllinni hringir að tala við þau í 3 persónu. "hvað ætlar drottningin að fá", " hvað má bjóða yfirhirðfíflinu"...númm, svo eru víst fínar kellingar hér í Köben sem versla gjarnan við vora blómabúð og þær verður að yðra..þið vitið ekki þúa. HVERNIG á ég að vita hverja að þeim á að þúa éða þéra (þarna komða, þéra)? Það kemur þá væntanlega í ljós þegar ég þúa þá sem ég á að þéra.

Hefst þá upptalning á meðvinnurum mínum (medarbejdere).
Fyrst er að telja mig sjálfa því ég er sannarlega númmer eitt.
Annað er að telja að sama dag og ég byrjaði, byrjaði önnur pía, líka 28 ára en ekki næstum því eins ungleg og falleg og ég. Hún er ljóshærð og er örugglega bara fín.
Svo er þarna Rikke. Nafnið er borið fram með munnvatni, því það spýtist út úr fólkinu þegar það segir GGGrrrrgAAggöööö. Hún er yngri en ég. Hún er örugglega um 20 eða 22 eða eitthvað svoleiðis. Hún hefur sítt krullað, litað svart og rautt hár og hana vantar íbúð til að búa í sem er með bílastæði.
Þá er þarna Peter, en hann er ekki blómsterdekoreitör, hann er grafískur hönnuður. Og það klingja afskaplega háværar bjöllur um að hann sé gei. En hvað veit maður um það svosem. Fyrsta daginn held ég reyndar að ég hafi fundið áfengislykt af honum,ekki gamla heldur ferska, eins og hann væri að staupa sig bara í fatahenginu eða á einum eða öðrum stað sem er heppilegur til staups. Hann er svona einskonar lagermaður, nær í allt, sér um að all sé fullt og vinnur blómin þegar þau koma. Og hann er virkilega næs, eldri maður.
Þá er líka hún Rita. Hún er eldri dama, voða sæt svona og hefur unnið sína tíð á Grænatorginu við að selja framleiðslu sína. Hún var mest í að rækta öðruvísi blóm og sumarblóm og taka fræ úr þeim sem ekki er hægt að fá fræ úr keypt. Svo eftir að það hætti þá byrjaði hún að vinna fyrir Bjarna.
Svo er Pia (Pia er svipað held ég að vinsældum og Kristín á Íslandi). Hún er lítil með stóra framparta sem skaga fram af henni. Hún er alger kona. Í allan gærdag og þangað til svona kl 12 í dag var ég viss um að hún ætti heima á árinu 1800 í torfkofa á Íslandi. Það var um kl 12 í dag sem ég sá að hún er með nokkur göt í eyrunum og líka pinna í tungunni. Það gerir þá að við allar píurnar í búðinni sem ég hef hitt þá, erum með lokka á öðrum stöðum en í eyrnasneplunum. Er það ekki svolítil þversögn miðað við að sjálf drottningin kemur stundum við og verslar sér túllípana? Tattú, pinnar á ýmsum stöðum og svart og rautt hár...=drottningin...Pia er annars ekkert feimin við að segja manni hvað má og má ekki, sem er ágætt.
Hanna er konan hans Bjarna. Hún er á símanum og hefur ekkert með blómin að gera. Hún er einskonar ritari eða þannig. Ég hef eiginlega bara ekkert um hana að segja nema það sé helst að hún er pínu andfúl.
Þá er það Bjarni sjálfur. Hann er fæddur 65 og þessvegna rétt slefaður yfir 40. Hann er með svart, næstum alltaf blautt hár, er það ekki merkilegt, því nú er hann ekki með dökkar augabrúnir né dökk augu, bara svona grá einhvernveginn. Hann er hress en líka held ég strangur. Hann er örugglega góður kennari. Númm, ég var látin gera blómvönd í dag, til að sjá hvort ég var góð eða ekki. Ég var góð. Spurning hvort það var byrjenda heppni eða hvað... Það er síðan alveg spes hvernig Beringblómvöndur er. Það er ekki sama hvernig og hann sagði að ef ég væri að gera eitthvað ljótt, að þá yrði mér hiklaust sagt það og ég yrði að gera aftur.
Ég er búin að geyma Marie því hún er mest skrýtin. Hún er upprunalega frá Sviss og talar Svissneska þýsku (ekki vissi ég að það væri til), frönsku, ensku, dönsku og ÍSLENSKU. Góðhhhan dageeen sagði hún þegar ég mætti og er búin að segja mér allt það sem hún man frá Íslandi. Hún var að vinna í Blómavali og á Blómaverkstæði Binna...alveg eins og ég. Fyrst hún er útlendingur, líka eins og ég, þá held ég að henni líðist að vera í framan eins og hún er. Þá er fyrst að telja súperfjólaubláan varalit og ælæner sem er sem þykkastur. Þá er maskari á efri augnhárum og svo tvö strik með bláu sínhvorummegin við augun, þá ekki nefmegin heldur utan við. Hún er hávær og liggur ekki á skoðunum sínum. Grraggöö sagði mér í gær að hún væri, stundum, hrædd við Marie. Ég hef hinsvegar lent í svo rosalega mörugm mismunandi og mislunduðum, manneskjum að svona höstug orð og einstaka hreytingur eru alveg hætt að hafa nokkur áhrif á mig. Enda tala ég svoleiðis sjálf ekki rétt? Það er ekki því ég er reið, eins og ég er búin að útskýra fyrir Bóndanum margoft, eða alltaf þegar hann fer að gráta því ég hef verið svo "vond" við hann, heldur er það útaf því ég tala bara svona. Einhverjir lesendur hafa heyrt mig segja HA og finnst það rosafyndið..(hehe)
Búðin er, annað en holan Amblomster, risastór. Þarna er gott vinnupláss og svona, allt einhvernvegin meira pró. Þegar ég hjóla í vinnuna fer ég yfir Löngubrú. Í morgun var ég að hugsa hvor það séu fleiri en ég í kappi við hina (sem vita ekkert um að ég er í kappi) um hver er fljótastur yfir brúna, því það gefa langflestir í.
Það er ekki nóg að vera fljótastur yfir brúna heldur verður maður líka að láta líta út fyrir að það sé ekkert mál, pís of keik. Því hef ég lýst áður, með að vera ekki með galopinn munninn og slefið útá kinn og tárin í augunum af erfiði. Nei, það verður að hjóla kúl og yfirvegað. Ekki eins og vaggandi önd á hjólinu. Sumir stíga af svo miklum ákafa til beggja hliða að allur líkaminn hreyfist með til hliðanna. Frekar glatað. Maður verður að hjóla bara með fótunum, með lokaðan munninn, helst með pínu brosi, því þetta er jú ekkert mál og svo kannski...kíkja á klukkuna til að sýna að þetta er sannarlega ekkert mál, eða ná í eitthvað í töskuna í körfuni því það er heldur ekkert mál. Það sem eyðileggur alltaf þennan leik fyrir mér er þegar fjárans skellinöðruletingjarnir koma framhjá. Rosalega finnst mér skellinöðrur hallærsilegar. Þær eru litlar og þú kemst ekki nógu hratt á þeim til að mega vera í umferðinni með bílunum heldur verður þú að þykjast vera eitthvað betri á hjólabrautinni. Það sem er enn verra en þegar skellinaðra lúsast framúr er þegar smástrákarnir sem vinna hjá grænu búðinni, eða hvað nú heitir, við að hjóla út með pakka fyrir póstinn. Þeir eru allir með kálfa eins og tröll og svo eru þeir með talstöð sem eitthvað heyrist úr... lítur út fyrir að vera miklu gáfulegra starf heldur en ég held að það sé. Þeir eru meira að segja stundum að teygja saman við Höfuðbanann...ég meina..take it inside, verið ekki að glenna á ykkur vöðvana við manneskjur sem rétt silast yfir Löngubrú.
Nú, þegar komið er yfir Löngubrú tekur við H. C Andresenboulevard. Rétt við rótina á Strikinu, s.s við Ráðhústorgið eru 4 menn sem vinna við að henda blöðum í fólk meðan það hjólar framhjá. Þar er einn offfsahress. Hann er svo hress að í sumar var hann með tónlist með sér og spilaði reggí músík. Hann er örugglega frá Jamaika eða einhverju svoleiðis, hann er samt ekki svartur. Núna er hann hinsvegar kominn í kuldagallann og það er engin tónlist, enda vei of kalt til að ýta á Play takkann. Hann er svo frakkur að hann hikar ekki við að slá mann í rassinn þegar maður afþakkar blaðið. Annað hvort yrði ég að taka alltaf blaðið, eiginlega bara til að losna við hann eða gera það sem ég geri,en það er að stoppa fyrr og bruna bara yfir Ráðhústorgið, það er hvort sem er styttra. Og þegar ég gerði það í gær þá tók ég eftir því að það er strafskraftur í Kaupmannahöfn sem sér um að skúra Ráðhústorgið. Í dag er starfið náttúrulega unnið á bíl, svona litlum sópara, en hver veit hvernig það hefur verið gert í gamladaga? Þá voru nú ekki allir kallaðir amma og eyminginn hefur þurft að fara bara út með moppu og skúringafötu.
Svo hjóla ég yfir Strikið í smástund, ekki allt náttúrulega. Ég hjóla að Nytorv, eða Nýjatorgi og beygi þar upp og hjóla fyrir ofan Strikið að Hringlagaturninum, Runde Turn. Búðin er þar við hliðina á.

Þannig var það nú. Ég sem sagt kræki framhjá rassaskelli á morgnana og þjóna drottningunni á daginn. Svo kem ég heim og læt þjóna mér að sjálfsögðu, enda á ég ekki annað skilið.
Ég fékk gott vinnuplan en það hlóðar uppá hálfa þriðjudaga annanhvorn þriðjudag og frí hinn þriðjudaginn. Frá 7 til 4 á mánudögum og 9-4 á hinum nema föstudögum þá er ég frá 8:30 til 19:30 og svo annanhvorn laugardag. Þetta gerir samtals 37 tíma vinnuviku. Nú er ég fyrst að komast í tæri við "danskan" vinnutíma, sem ég mótmæli nú ekki...

Ha' en god dag

13 Jan 2008

Sjett...

Ég er alveg að deyja úr stressi yfir vinnunni á morgun..hvað ef ég stend mig ekki og verð send öfug heim..??

Hér er búið að vera gott um helgina annars. Bóndinn fór með stóru börnin í dýragarðinn og þeim fannst það að sjálfsögðu bara frábært. Ég var heima að slæpast meðan Sindri svaf og í dag bakaði ég pönnukökur og við rændum gestum til að koma og éta þær. Við hringdum og buðum Helgu og Adda í pönnur og svo létum við gestina þeirra koma líka og éta pönnur. Það var fínt, sérlega í ljósi þess að það var ekki nóg af pönnukökum til að ég gæti étið yfir mig. Ef ég tel, þá komu hingað að borða pönnur 10 manns fyrir utan okkur og þá vorum við samtals 15 sem átum pönnukökur...hvað ætli ég hafi bakað margar?? Reiknið nú.

10 Jan 2008

Hí á Amagerblomster

Fljótt skiptast veður í lofti... amk á Íslandi og þá væntanlega líka fyrir Íslendinga, hvar sem þeir eru staddir.

Langar mig að byrja á því að segja á Amagerblomster þar sem þau héldu því alltaf fram að þau væru frábær og að ég gæti ekki fengið vinnu neinstaðar annarsstaðar en hjá þeim eða við þrif. Þau eru númer eitt ekkert frábær, bara langt frá því og auðvitað get ég fengið vinnu annarstaðar!!! (við erum að tala um MIG, hver vill ekki fá MIG í vinnu, þeir ættu bara að vera þakklátir sem ráða MIG að ég yfirleitt kom og sótti um hjá þeim....)
Ég hef fengið vinnu hjá Bering house of flowers. Skoða það hér.

Númm, ég byrja á mánudaginn og hafa þau ekki vandamál með að ég hætti kl 16 á daginn og borga mér betur.

Annars ætla ég nú bara að láta þessa 3 tilraunamánuði líða bara. Ég hef þá lært, í hundraðasta skiptið, að dæma ekki bók eftir kápu hennar, eða svoleiðis. Ég hélt sko að fólkið í Amagerblomster væri 100% fólk en svo kom í ljós að það er bara 100% geðveikt.

Pínu um Bering house of Flowers:
Búðin liggur á Landmærket, sem er við hliðina á hringlaga turninum. Sem sagt í miðju miðbæjar Kaupmannahafnar. Það þykir mér skemmtilegt og hlakka til í sumar þegar það er gott veður og margir að njótasín. Annað en í dag, það er ekki gott veður, en örugglega margir að njótasín þrátt fyrir það.
Búðin er þekkt um allan heim og það er einsgott að standasig. Ég verð eina sem er ófaglærð, það verður verra því mér er ekkert um það gefið að vera lélegust, þó ég hafi ekki hátt um það, en mér finnst það alveg óþolandi og væri til í að vera betri en þau öll eða að minnstakosti jafngóð. Svo ég stefni á að hægfara en örugglega muni ég verða best þarna.
Búðin er búin að vera til í 35 ár og sá sem ég vinn fyrir er búinn að reka hana í 6 ár en búinn að vera þar síðan 1985.

Ég efast ekkert um að mér gekk svona vel að fá vinnu, bara viku efitr að ég hætti á hinum staðnum því þið senduð mér svona marga góða þanka. Bestu þakkir fyrir það.

Fyrst þetta gekk svona hratt fyrir sig og ég fékk svona marga þanka senda þá sé ég mér ekki annað fært en að annaðhvort leggja þá inn eða selja þá. Ef einhvern vantar þanka þá eru þeir falir gegn óvægu verði. Mér finnst eðlilegt að einn þanki muni kosta svona 500 danskar. Þeir sem hafa áhuga geta sent mér póst og ég sendi reikningsnúmer um hæl svo hægt sé að leggja inn og eg sendi þankann á móti. Merkið pöntunina með leyninafni, ég vill ekki að Bóndinn viti að ég sé að selja þanka.

Við eigum ennþá svo mikið af nammi síðan um jólin. Reyndar er allt besta nammið búið, nú er bara eftir nammi sem maður étur afþví maður er háður því. Við átum svo mikið nammi um hátíðina að þegar Bóndinn rekur við læðist um súkkulaðilykt. Það er kannski það eina sem mér finnst til bóta, við svona mikið súkkulaði át.

Við erum að verða búin að afjóla íbúðina, það sem er eftir er serían á svölunum en þar verður hún örugglega þar til á nsæta ári..eða í sumar, sem ég hlakka svo til.

Mér finnst ekkert við það að vera til á þessum útmánuðum eða hvað þeir heita, hvaða mánuðir eru útmánuðir? Eru það ekki þessir mánuðir? Húðin verður öll þurr, hún varð svo þurr að þegar ég fór að grenja yfir atvinnuástandi mínu um daginn að þá sveið mig í kinnarnar. Svo er ekki alltaf hægt að senda börnin út að leika sér og maður er ekki eins til í að fara út sjálfur, kannski þetta ættu frekar að heit Innmánuðir, eða Innimánuðir, svo er kalt og dimmt. Þessvegna er ég að hugsa um að kaupa mér nýja vekjaraklukku frá Philips. Klukkan er í raun lampi sem kveiknar á og það heyrast einhver undurfögur hjóð og maður vaknar við ljós en ekki ...GA.GA.GA.GA.GA

6 Jan 2008

Til Sindra, sem er æðislegur


Það var 4.janúar 2006 sem þessi krulla skaust út.


Persónulega hefði ég kosið að hafa hann alltaf svona krullaðan, það var alveg rosalega flott


Hann var ekki það stór, en hann var samt stærri en systkini sín þegar þau fæddust.


Ekkert er meira spennandi en auðopnaðar skúffur í eldhúsinu hjá Eðalömmu (eða Ömmu L eins og er einmitt líka kúl að segja)


Mér finnst hann alltaf líkjast svolítið Jóhannesi. Það er kannski ekkert greinilegt á þessari mynd, þannig, ég sé það samt. Hann er líka voða líkur mér og oft á tíðum Eðalömmu og oft líka Aðalömmu, það kemur svo svipur af Yfirpabba og Pabba B þarna líka, hann er sæmileg blanda af systkynum sínum, það sést best á hárinu, bæði dökkt og ljóst.


Skoða dótið sitt í Háagerði, engar krullur þarna og bara líkum sjálfum sér.

Fyrir neðan: svvvoooooo sætur :)

Í Afabæ áður en við fluttum

Kominn til Danmerkur og búinn að fá þríhjól frá Eðaömmu. Það var kátur dagur.

Í gær. Verðandi arkitekt.

Blása á afmæliskertin í gær.

Eftir kökuátið kíktu eldri krakkarnir (s.s allir nema hann og Ásta Hlín) á dótið í herbergi krakkanna og svo kveiktum við á sjónvarpinu til þess að ná líðnum niður sem ég hélt persónulega að ætlaði bara að rifna, þvílík var spennan í liðinu. Sindri fær sér desert þarna á HVÍTA púðanum mínum, sést glitta í hús sem hann fékk frá Yfirpabba. Hann fékk líka margt annað, viðbót við trélest sem við gáfum honum í jólagjöf, föt frá Aðalömmu (Ömmu R) og púsluspil svo eitthvað sé nefnt.

Númm, afmælishaldið. Þarna eru talið frá Sindra og í áttina að bleiku tvíburunum: Sunneva, Lára Huld, Snæbjörn Helgi, Gummi, Tómas og Ásta Hlín

Bleiku tvíburarnir. Fyndið er að Sunneva valdi sér þennan í HM og Lára Huld fékk sinn í jólagjöf. Þær eru nú alveg spes þessar gellur.

Sindri sjálfur í dag, bara núna rétt áðan. Rétt er það sem stendur á bolnum hans. Hann stundar þá morgunleikfimi að klifra af stól uppá eldhúsinnréttinguna, opna þar skápa og hirslur. Grípa sér alvæpni í formi M&M og dúndra því um öll gólf, éta hálfan ópalpakka sem við fengum sendann frá Íslandi, hann var nú svo ljúfur þessi elska að hann kom með hálfétinn pakkan í rúmið til mín þar sem ég svaf eins og ég hefði aldrei sofið áður og vildi gefa mér eitt. Það sem ég heyrði næst var Gummi að garga: "mamma, hann er búinn að éta allt Toblerónið..." Ég spurði í ganni þau eldri hvort þau hefðu ekkert fengið sér Toblerón eða Ópal, svörin voru: "það datt uppí okku" og "Sindri kom og bara SETTI það uppí okkur". Í morgunleikfimitímanum í morgun hrundi hann niður stigann upp í rúmin til krakkanna og er þessvegna með íþróttameiðsl á bakinu.

Í gær komu AHG í öllu sínu veldi. Þegar þau eru öll þá erum við tvær fjölskyldur samtals 11 manns. Það fannst okkur merkilegur fjandi, við gerðum reiknisdæmi uppá það að þurfa félagsheimili til veisluhalda eftir um 20 ár, líka fyrr, en reiknisdæmið var svona: Öll okkar börn væru með maka, þá eru komnir 14, allir ættu amk 2 börn (elsti verður eftir 20 ár 32 ára...) þá er það 28 manns og svo við 4, þá hljóðar dæmið uppá 32 manns. Allt undan okkur (reyndar aðeins fleirum en okkur en það er önnur og bara alveg ágæt saga).

Hlíf og Claus komu áðan. Þau voru ennþá heit eftir að hafa verið í Thailandi frá miðjum des til áramóta. Ég skoðaði myndir frá ferðinni og þetta hljómaði alveg rosalega spennandi. Alveg jafn spennandi og það sem við æðripartur Félagsbúsins hyggjumst reyna að möndla saman í ágúst næstkomandi.

Af atvinnumálum: ég er búin að skrifa annað CV og prenta, setja í umslög og svo hjóla ég á milli búða á morgun. Spennandi verður að vita hvort ég neyðist til að þrífa mannaskít á klósettum á óþekktum stöðum eða hvort ég fæ óskastarfið. Heppilegt að ég er svona óráðin í öllu lífinu og þessvegna gæti mér fundist það bara alveg frábært hvað sem ég myndi fá að gera, nema náttúrulega drulluþrif.

Hej

4 Jan 2008

Svali


Svali minn á afmæli í dag. Hann er 2 ára. Hann er svooo sætur. Seinna ætla ég að setja inn eitthvað skemmtilegt um hann eða frá því þegar við höldum uppá afmælið hans.
Einhver (bara þeir sem eru gáfumenni) hafa kannski spurt sig að því afhverju ég er heima á venjulegum föstudegi... án efa eru allir að fylgjast með því hvað ég er að gera á hverjum degi. Ástæðan er að ég er atvinnulaus....ATVINNULAUS. Er það ekki merkilegt?? Fundurinn í gær var ss um það að þau vildu að ég myndi vinna á opnunartímanum öllum. Þar sem ég eins og æði margir á mínum aldri og í mínum sporum er með smábörn og heimili og svona, áhugamál önnur þá gengur það ekki upp. Ég fékk "take it or leave it" tilboð um að vinna lengur hjá þeim á daginn, sleppa því að hitta erfingjana (einhvern tíma verð ég að hafa til að sjá hver þeirra er hæfastur til að fá fjölskyldu auðinn), hætta öllum tónlistaskólanum (ó mig auma), biðja bóndann að hætta fyrr í sinni vinnu (ekki það að það yrði ekki ágætt...bara frek þau) síðast en ekki síst var ég eina manneskjan sem er að vinna sleitulaust án nokkurra frídaga um páskana... er það ekki merkilegt? Þannig að ég neyddist til að ákveða að ég gæti ekki unnið fyrir þau undir þessum formerkjum. Eins og ég nefndi í öðrum pósti og hefði kannski átt að sleppa, nú hljómar það rosa asnalega, að þá elska ég að vinna með blóm og taldi mig svoleiðis vera búna að finna endastöðina. Ég er farin að halda að mér sé ætlað að læra ekkert og vinna bara einhversstaðar... það má segja að ég sé í ruglinu núna. Það er svosem ekkert annað að gera en að setjast yfir gerð fleiri ferilskráa og hendast um Amager og sækja um annarsstaðar. Eru ekki allir vissir um að ég fái alveg vinnu í annari blómabúð? Senda mér góða þanka.

3 Jan 2008

Kalt í Köben

Svei mér... það er svo kalt hérna að það er alveg 1,5 stig í mínus. Þrátt fyrir að Íslendingurinn í mér hlægi hátt og snjallt að þessari skitnu 1,5 kommu í kulda, þá held ég að hann hlægi sér til hita. Það er napurt og hendurnar mínar hafa án viðvörunar skroppið saman um númer eða tvö og passa nú ekki lengur um beinin. Þessvegna hefur skinnið sprungið á mörgum stöðum, ég á svo bágt. En í alvöru þá er alveg ótrúelga óþægilegt veður, sem sagt þessi eina og hálfa í kulda og svo er rok í þokkabót. Þá er aldrei beinlínis gaman að vera á hjóli. Ég sé sko ekki eftir 50 krónunum sem ég eyddi hér fyrr í vetur í derhúfu sem er prjónuð og frekar pokuð. Húfan passar um gyllta (aaaallls ekki gráa) lokka mína (eða ætti ég að segja flóka mína..) og líka yfir höfuðið og niðrá eyru, er það ekki snilld? Nú, derhúfuna hef ég kallað "regnhattinn" því ef það rignir þá er gott að hafa der til að skýla sér. Þá kom í ljós að vetrar sólin er ekki ýkja hátt á lofti og þá kom deri sér vel líka. Í dag reddaði mér derið þegar ég var á leiðinni, hjólaði hægar en sá sem labbaði við hlið mér, í vinnuna og ég sá bara sand koma fljúgandi. Með snöggum viðbrögðum beygði ég hausinn og fann sandinn og smásteinana bylja á mér.
Núna erum við komin heim. ÉG þarf hinsvegar að fara á fund með yfirmönnum mínum, honum Lars og Josie kl. 18. Hvað ætla þau eiginlega að segja við mig??? Bara ég ein á fundi með þeim!! Merkilegur fjandi búskapurinn í Amager Blómster. Kerlingin er sú mislyndasta sem ég hef á ævi minni kynnst, að sjálfri mér meðtaldri. Karlinn er ég veit ekki hvað, frekur á frekan ofan. Dóttir þeirra er ofdekruð og helmingurinn af liðinu sem ég taldi upp hér um daginn er hættur. Allar Louisurnar eru hættar. Nú er það bara ég og Christina sem vinnur þessa dagana með mér í gömlu búðinni og svo Nina og Josie sem vinna í nýjubúðinni. Við Christina þeigjum allan daginn og Nina og Josie tala um það sem við "sögðum" allan daginn. Ég hef verið að undirbúa ræðu í marga daga ef ske kynni að þau myndu ætla að spyrja mig að einhverju tengdu "Louisu-málinu" Þá mun ég tilkynna að ég sé ósammála hvernig þau höndluðu málið, en þau héldu að hún hefði stolið einhverju. Það er ekki sannað með sönnunargögnum. Þess í stað baktöluðu þau grey gelluna í bak og fyrir og töluðu um hversu glötuð hún væri, hvað allt sem hún gerði væri rosalega ljótt og asnalegt og svo halda þau að það sé henni að kenna að búðin gekk ekki eins vel og þau höfðu ætlað... Úff, það er eins gott ég hætti núna svo ég verði ekki orðin ösku reið þegar ég kem þá loksins á fundinn...

2 Jan 2008

Yfirferð



Daginn í dag, daginn í dag gerði drottinn guð, gerði drottinn guð... það er alveg rétt, engum öðrum hefði dottið í hug að mannfólkið kynni að búa til lyftur í blokkunum sínum. Það bjargaði því að ég þurfti ekki að skúra niður tröppurnar frá fjórðu hæð og niður drullu og sand og sand og drullu. Þau fóru út börnin og hringdu svo dyrasímanum og sögðust vera skítug. Ég sagði þeim að fara úr yfirhöfnunum úti og skilja þær eftir...SKILJA ÞÆR EFTIR. Þau hafa misheyrt eitthvað, þau drógu draslið inn, þvoðu í leiðinni rúðuna á útidyrahurðinni, inn í lyftuna þar sem allir takkarnir og spegillinn upp að því sem þau ná var útatað, ég þurfti að moka af lyftugólfinu. Gólfið fyrir framan okkar hurð sem og hurðin og dyrabjallan voru líka brún. Ég sendi þau inn í sturtuna svo þau gætu farið úr sokkunum og því sem enn var í mold. Svo lét ég þau hafa tuskur og sendi þau út á gang að þvo. Þeim fannst það ekkert leiðinlegt, og sulluðu bara meira. Hvers á ég að gjalda eiginlega? Númm, ég mátti að sjálfsögðu fara nokkrar ferðir upp og niður í lyftunni meðan liðið "þvoði" baðherbergið... það var alveg "tandurhreint" þegar ég var búin að skúra í blokkinni og vera skömmuð af einhverjum útlending sem nefndi eitthvað um að ég ætti næst að nota toilettið. Ég sendi honum fingurinn í laumi.
Ég hef ekki verið með fjölyrði um jólin en þau fóru mjög skemmtilega fram. Allir voru rólegir og enginn réðst á pakkana og tætti þá í sundur. Þau langaði örugglega en sáu trúlega fyrir sér að þau yrðu skömmuð rækilega.




Ég veit ekki hvert Sindri ætlaði , það hlítur að hafa verið langt, með tvær töskur og allt. Ég veit heldur ekki hvað Sunneva hafði í hyggju, mögulega að veita honum eftirför hvert sem það var sem hann ætlaði.







Og svo byrjaði pakkakvöldið. Þau fengu Latabæjar húfur og svo margt fleira, lestir, skrímsli, bækur, föt, barbí, bratz, krókódíl, bíla og þetta var dásamlegt. Við höfum bara upplifað yfirgengið pakkaflóð þar sem aðeins sést í toppinn á trénu sem hefur alltaf verið hærra en ég (og ég er stærst á heimilinu). Í ár var þetta akkúrat passlegt, allir fengu sitt og allir voru glaðir og enginn fór yfir um.



Bóndinn stjórnaði upptöku pakkanna og gerði það eins og hann hefði tekið kúrs í stjórnun. Hann eldaði líka jólamatinn sem var dásamlegur. Það er eins og hann kunni ekki að elda illa, annað en ég, óhúsmóðirin.


Ég fékk (eða við Bóndi) púsl af evrópu og púsl af Íslandi. Mér fannst það gaman og er nú búin að púsla evrópu púslið tvisvar. Talandi um Ísland þá spurði Gummi á gamlársdag afhverju við ætluðum ekki að skjóta neinu upp. Rolurnar við keyptum engar ggrrraagettur. Ég sagði að ég vissi ekkert um það og Bóndinn sagði að það væri bara öðruvísi í Danmörku...bara að klóra sig útúr of erfiðum spurningum erfingjanna. Þá sagði Gummi " en við erum Íslendingar, við getum gert hvað sem við viljum" er þetta ekki flott setning??
Svona var ég hress á aðfangadagskvöld, alveg steindauð í sófanum af þreytu eftir alla geðveikina í búðinni. Sindri var líka hress, hann vildi ekki sofa í sínu rúmi og plantaði sér þarna.
Þarna er Svali minn. Í úlpu með húfu og bíl sem hann fékk í jólagjöf. Hann er líka í jólfötunum sem samanstanda af skyrtu og buxum sem eru þröngar niður, er það ekki skemmtilegt. Þegar við fórum í jólafatainnkaupaleiðangu fyrir jólin fórum við í HM vini vors og blóma og skiptum þar liði. Við píkurnar fórum í stelpu deildina og Sunna valdi sér kjól og typpin fóru í strákadeildina og Bóndinn valdi töffaraföt á strákana. Mikið er gott að hann gerði það, ég hefði örugglega keypt á þá bangsimongalla.


Bryndís og co komu í heimsókn eins og ég hafði skrifað hér einhversstaðar. Þarna eru hún og Bóndinn að leika ég veit ekki hvað.

Hinrik vissi ekkert hvað þau voru að gera. Við átum ekki allt nammið sem er á borðinu og í skápunum mínum og drukkum ekki allt gosið sem var á svölunum.

Þarna er ég sjálf að leika einhver ósköp. Bóndinn sagðist aldrei hafa séð þennan svip á mér áður...ég veit ekki á hvað hann er alltaf að horfa en það er greinilega ekki ég. Ég set þennan svip upp á hverjum degi.. .

Bryndís vissi alltaf hvað ég var að leika og ég vissi alltaf hvað hún var að leika. Strákarnir svindluðu hinsvegar og úrslit leika voru alltaf á þá leið að þeir unnu. Með naumindum þó.

Addi var hér og var að taka rúmið hans Sindra með sér. Við gerðum breytingar í herbergjum krakkanna og fengum fyrir þau hærri rúm heldur en þau voru með og nú sitja þau við sitthvort skrifborðið og dundasér. Sindri fékk þá annað rúmið þeirra og á núna smá herbergi undir því. Hann var súper glaður með það og beið ekki boðanna að pissa þar inni á mottuna til að merkja sér svæðið. Annars er hann að verða stór blessaður, 2 ára á hinn. Merkilegt hvað þetta líður hratt. Fyrir tveimur árum þá sat ég bambólétt í Tommelilla sófanum mínum á efri hæð Háagerðis á Hvammstanga. Ég var svo feit að ég horfði á sjónvarp allan sólarhringinn. Ég var of kringlótt til að fara niður stigann nema bara þegar náttúran kallaði og ég var of mikil blaðra til að leggjast útaf til að sofa. Þannig að ég horfði á sjónvarpið og prjónaði. Ég var á seinni sokknum, átti bara tána eftir þegar Svali barði að dyrum og ég hef ekki snert prjóna síðan. Margt hefur gerst og ef það er ekki tími til að líta yfir farinn veg akkúrat á áramótum þá veit ég ekki hvað. Við höfum í gegnum okkar tíð, átt 3 börn, átt Þinghúsið, átt Háagerði, átt hvort annað, átt glaða daga og átt súra daga, selt Þinghúsið, selt Háagerði og flutt til Reykjavíkur aftur, borgað svívirðilega háa leigu og selt allt steini léttara og flutt búferlum til Danaveldis. Ég hef á þessum árum tekið um 35 einingar í fjarnámi (alltaf á leiðinni að fá mér hvíta húfu...) lært skrifstofutækni, farið í framhaldsskóla, sótt um hönnunar háskóla, æft mig og æft á flautuna og farið með Sindra á brjóstinu í próf í Reykjavík og samt fékk ég 9, sem ku vera ágætt. Ég hef gert mistök og Bóndinn hefur gert mistök, þau hafa verið leiðrétt og saman erum við einstök. Eftir að við fluttum til Kaupmannahafnar höfum við eignast góða vini og enn betra samband við vora fjölskyldu, þá datt ég í lukkupottinn í tónlistaskólanum, ég klárað með sóma nám mitt við Iðnskólann í vetur og fékk fínar umsagnir, afhverju þeir láta mig ekki bara hafa stúdentsprófið veit ég ekki... við höfum öll stigið svo oft út fyrir þæginda hringinn á þessum síðustu árum að það liggur við að óþægindin séu orðin þægileg, how about that!! Fleira dúndur skemmtilegt er í farvatninu og kemur það í ljós seinna (nei við erum ekki að fara að gifta okkur né að eiga fleiri börn).

Maður verður stundum svo meir.

1 Jan 2008

Gggraggetter

Bara stutt héðan. Nú er vitaskuld orðið árið 2008 þó það sé ekki alveg búið að gerast heima á Íslandi. Ég er Íslendingur og fagna ekki næsta ári fyrr en það er komið á Íslandi. Hér eru hinsvegar allir að verða geggjaði í sprengingum. Þeir sem hafa ekki hvítan húðlit hér í blokkunum er kolgeðveikir og eru að sprengja milli blokka (á ÖLLU því plássi sem er, plássið sem er telur tvær gangstéttir tvær lengdir af bílastæðum og eina einstefnu götu. Manni stendur ekki alveg á sama, við erum t.d ekki úti á svölum af hræðslu við að verða skotin niður af bleikum og grænum ljósum.

Gleðilegar árskveðjur úr kotinu.

Meira síðar :)